- Advertisement -

Davíð skriplar á skötunni

Sést ekki fyrir í varnarbaráttu gegn veiðigjöldum. Segir þjóðina fasta í fordómum gegn sjávarútvegi.

Davíð Oddsson: „…er ríkið ein­fald­lega að hrekja fyr­ir­tæki og fjár­magn frá út­gerð, draga úr fjár­fest­ing­um og upp­bygg­ingu og valda byggðunum um landið tjóni.“

Davíð Oddsson segir umræðu um veiðigjöld markast af fordómum þjóðarinnar í garð sjávarútvegs. Sem er auðvitað fráleidd niðurstaða ritstjórans. Sjávarútvegurinn hefur gert margt fínt. Það breytir bara ekki því að óskað er eftir sanngjörnu endurgjaldi fyrir aðganginn að sjávarauðlindinni. Eðlilega.

Ef útgerðin er sammála Davíð um fordóma þjóðarinnar, eigenda auðlindarinnar, er tímabært að þeir hinir sömu, og Hádegismóaritstjórinn, líti eitt augnablik í spegil. Ár eftir ár eru sett met í arðgreiðslum í sjávarútvegi. Þar með er augljóst að talsvert er til skiptanna. Milli útgerðarinnar og þjóðarinnar.

Yfir til Davíðs: „Umræðan um veiðigjöld­in verður að kom­ast upp úr þeim hjól­för­um for­dóma í garð sjáv­ar­út­vegs­ins sem hafa orðið til þess að þau hafa um ára­bil verið óeðli­lega há og hafa sligað fjölda út­gerða og valdið mikl­um erfiðleik­um.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta er hrein ímynd. Þjóðin er ekki haldin fordómum. Hættum þessu bulli.

Jæja, yfir til Davíðs: „…er ríkið ein­fald­lega að hrekja fyr­ir­tæki og fjár­magn frá út­gerð, draga úr fjár­fest­ing­um og upp­bygg­ingu og valda byggðunum um landið tjóni.“

Æi, æ. Að fólkið í landinu muni valda byggðunum tjóni. Davíð hefði betur sleppt þessu. Arna Lára Jónsdóttir, sagði á þingi fyrir fáum dögum:

„Sjávarbyggðir landsins hafa mátt þola ýmis skakkaföll í sjávarútvegi síðustu áratugina og ekki síst með tilkomu kvótakerfisins sem var í senn ætlað að vernda fiskstofnana og stuðla að hagræðingu í sjávarútvegi. Sú hagræðing hefur haft verulega neikvæð áhrif á margar sjávarbyggðir, sérstaklega smærri þorp sem eru fjarri stærri og öflugri atvinnusvæðum. Til dæmis hefur íbúum minnstu sjávarbyggða landsins fækkað um 37% frá 1984 til 2017.“

Betra að hafa það sem sannara reynist en það sem betur hljómar, heyrir þú það, Davíð.

Yfir til Davíðs í síðasta sinn.

„Það get­ur ekki verið eðli­legt að for­dóm­ar fái að hafa slík áhrif á at­vinnu­líf hér á landi.“

Davíð, hættu, þetta er löngu afgreitt og afsannað. Þú hlýtur að geta betur.

Að hluta til byggt á leiðara í Mogganum.   


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: