Davíð skilur ekki sneiðina
Nú skulum við snúa plötunni við. Óvissan um eigin afkomu er mörgu fólki óþægileg. Það sér von þar sem ný forysta verkalýðsfélaga fer.
Það er ótrúlegt að jafn reyndur maður og Davíð Oddsson hafi ekki skilið sneiðina sem Sólveig Anna, formaður Eflingar, sendi honum og öðrum. Þegar hún skrifar:
„Stemmningin í herbúðum óvina vinnandi stétta er ótrúleg,“ á hún örugglega ekki bara við Hörð Ægisson á Fréttablaðinu. Óvinir vinnandi stétta er ekki bara á Fréttablaðinu. Þeir eru einnig í Borgartúni 35 og á ritstjórnarskrifstofu Moggans.
Það þarf ekki að leita lengi. Í leiðara Davíðs í dag, sem er jafnvel skrifaður á sama tíma og mbl.is skrifaði fréttina um að Sólveig Anna hafi „hjólað í ritstjóra Markaðarins“ stendur þetta, sem dæmi:
„Forystu verkalýðshreyfingarinnar hlýtur auðvitað að vera fullljóst að ef samið verður um kjör sem eru umfram það sem fyrirtækin í landinu geta staðið undir verða afleiðingarnar uppsagnir og jafnvel gjaldþrot margra fyrirtækja.“
Á móti ber að skrifa að ef samið verði um lægri laun en duga fólki til framfærslu og til fjárhagslegs öryggis er ekki til neins barist.
Svo skrifar Davíð: „Óvissan er óþægileg fyrir fyrirtækin í landinu.“ Nú skulum við snúa plötunni við. Óvissan um eigin afkomu er mörgu fólki óþægileg. Það sér von þar sem ný forysta verkalýðsfélaga fer.
Víst er að áróður Harðar Ægissonar og Davíðs Oddssonar truflar ekki þá vegferð.
„Stemmningin í herbúðum óvina vinnandi stétta er ótrúleg. Henni verður ekki lýst öðruvísi en sem sturlaðri. En í sturluninni opinberast sannleikurinn um innrætið. Þegar við höfum hrist af okkur hryllinginn sem vaknar við árásirnar og ádrepurnar hljótum við þessvegna að geta glaðst örlítið, í þeirri trú að sannleikurinn hjálpi við að gera okkur frjáls og að fyrsta skrefið í átt að frelsi sé að viðurkenna sannleikann um þá sem styðja áframhaldandi yfirráð auðstéttarinnar yfir vinnuaflinu á Íslandi. Sannleikann um fólk sem getur frekar séð fyrir sér heimsendi en jöfnuð og réttlæti. Það er enginn smá sannleikur,“ þannig byrjaði mögnuð grein Sólveigar Önnu.