„Það er alþekkt að þeir sem komast nærri forseta Bandaríkjanna, á öllum tímum, leitast við að gera sér mat úr því og oft með góðum árangri. Bróðurdóttir Donalds Trumps, Mary Trump, hefur gefið út bók um frænda sinn, „hættulegasta mann Bandaríkjanna“, eins og hún kallar hann. Mary er flokksbundinn demókrati og ötull stuðningsmaður Hillary Clinton. Bókin um Trump eftir frænkuna kom út 14. þessa mánaðar og seldist í milljón eintökum fyrsta daginn!“
Þannig skrifar Davíð í Reykjavíkurbréfi morgundagsins. Og er ekkert hættur:
„Það er því ekki of fljótt að segja að Mary verði mjög fjáð eftir bókina og eru aurarnir þá taldir í milljörðum króna. Hún var svo sem ekki á flæðiskeri fyrir, því afi hennar hafði arfleitt fjölskylduna að háum fjárhæðum (10-40 milljörðum (mælt í íslenskum krónum)), en Mary og aðrir afkomendur Freds yngri, bróður Trumps, töldu sig hafa komið verr frá þeim potti en eðlilegt hefði verið og þaðan mun hatrið á Donald frænda komið. Fred jr. var forfallinn alkóhólisti en Donald hefur aldrei smakkað vín. Hann segist ekki hafa sett sínum börnum önnur skilyrði í þeim efnum en þau, að noti þau áfengi, sem sé þeirra mál, geti þau ekki starfað við fyrirtæki hans.“
Næsta skref Reykjavíkurbréfs Davíðs: „Bók Johns Boltons, fyrrverandi öryggisráðgjafa Trumps, er einnig komin út og margir töldu að hún væri líklegri til að skaða forsetann en bók frænkunnar. En bók Boltons hefur ekki fengið mikið flug og þykir nokkuð tyrfin og smásmyglisleg og sumt sem á að vera gagnrýni sé fremur til að styrkja forsetann en hitt.
Eitt af því sem Bolton gagnrýnir Trump fyrir er atvik þegar Íransher skaut niður njósnadróna Bandaríkjanna. Bolton lagði hart að forsetanum að gera refsiárás á Íran, þótt hún yrði að sjálfsögðu takmörkuð. Forsetinn spurði hvað slíkri árás fylgdi og Bolton svaraði því til að það hlyti að verða nokkurt mannfall hjá Írönum, sem reynt yrði að takmarka. Trump benti á að enginn Bandaríkjamaður hefði farist þegar dróninn var skotinn niður og hann gæti því ekki varið það fyrir sjálfum sér eða öðrum að valda manntjóni í hefndaraðgerð vegna drónans.
Öfugt við spár margra (og stundum stórkarlalegt tal Trumps) hefur forsetinn verið tregari til manndrápa en flestir forverar hans á síðari tímum. Augljóst er að Bolton telur viðbrögð forsetans veikleikamerki en þar sem Bolton hefur orð á sér fyrir að vera í vígreifari kanti er ekki víst að af skrifum hans verði mikill skaði.
Kórónuveiran hefur farið mikinn í Bandaríkjunum en margt bendir til að senn hjaðni þar og er þá líklegt að fjör færist í leikinn í kosningunum og jafnvel verði sendur leiðangur til að sækja Joe Biden upp úr kjallaranum. Stjórnendur hans í Demókrataflokknum reyna þó að draga það eins lengi og þeir mega.“