Davíð Oddsson er að vonum í harðri andstöðu við launabaráttu láglaunafólks. Hann skrifar:
„Að auki háttar svo dapurlega til á þessum örlagatímum að veruleikafirrtur hópur leikur lausum hala. Þar er t.d. liðið sem náði fjölmennu verkalýðsfélagi undir sig með því að fá 8% atkvæða þeirra sem voru á kjörskrá. Nú þegar umræðan snýst um það hvort óhætt sé að fikra sig á ný í átt að því lífi í landinu sem við viljum geta gengið að vísu, þá eru þessi með 8% að undirbúa verkföll!!! til að koma í veg fyrir að hægt verði að opna skólakerfið á nýjan leik.
Nú má ætla að ríkisvaldið í landinu hafi á þessum örlagatímum staðið í þéttum viðræðum til að reyna að koma vitinu fyrir þá firrtu þótt ekki hafi borist neitt út um það. Og þá um leið sé það að undirbúa eðlileg viðbrögð á þessum neyðartímum.
Öll þjóðin er í þrengingum sínum að smíða ausutetur og þá eru þeir til sem telja nauðsynlegast að bora á ausuna göt.“