Gunnar Smári skrifar:
Ég var leiddur út í að fjalla um nokkra stjórnmálaleiðtoga og áhrif stefnu þeirra á hagvöxt á þræði hjá Brynjari Níelssyni og safnað því saman hér.
Margraet Thatcher var forsætisráðherra Breta í rúm ellefu ár. Á þeim tíma óx hagvöxtur á mann í Bretlandi um 27,7% en á jafnlöngum tíma þar á undan um 32,4% og ellefu árin þar á undan um 36,7%. Hvað sem Thatcher gerði, þá var það ekki gott fyrir hagvöxtinn.
Ronald Reagan var forseti Bandaríkjanna í átta ár. Á þeim tíma óx hagvöxtur á mann í Bandaríkjunum um 18,1% en átta árin þar á undan um 22,1% og átta árin þar á undan um 24,6%. Hvað sem Reagan gerði, þá var það ekki gott fyrir hagvöxtinn.
Davíð Oddsson var forsætisráðherra Íslands í þrettán ár. Á þeim tíma óx hagvöxtur á mann á Íslandi um 31,7% og hrundi síðan stuttu síðar. Þrettán árin fyrir Davíðstímann var hagvöxtur á mann 25,6%, þrettán árin þar á undan um 60,1% og þrettán árin þar á undan um 74,3%. Hvað sem Davíð gerði, þá var það ekki gott fyrir hagvöxtinn.
Hugo Chavez var forseti Venesúela í ellefu ár. Á þeim tíma óx hagvöxtur á mann í Venesúela um 35,7% en ellefu árin þar á undan hafði landsframleiðsla á mann í Venesúela dregist saman um 15,4% og ellefu árin þar á undan dróst landsframleiðslan einnig saman, um 10,1%, en nýfrjálshyggjan hafði leikið Venesúela illa eins og mörg önnur lönd Suður-Ameríku. Hvað sem Chavez gerði, þá var það gott fyrir hagvöxtinn.
Með þessum samanburði er ég ekki að halda því fram að Hugo Chavez hafi verið góður forseti. Aðeins að benda á að þegar nýfrjálshyggjupáfarnir hallmæla honum verður að hafa í huga að þau Thatcher, Reagan og Davíð voru miklu verri. Alla vega þegar hagvöxturinn er notaður sem mælikvarði, en nýfrjálshyggjupáfar láta oft sem sá mælikvarði sé algildur.