- Advertisement -

Davíð, Reagan, Thatcher og Chavez

Gunnar Smári skrifar:

Ég var leiddur út í að fjalla um nokkra stjórnmálaleiðtoga og áhrif stefnu þeirra á hagvöxt á þræði hjá Brynjari Níelssyni og safnað því saman hér.

Margraet Thatcher var forsætisráðherra Breta í rúm ellefu ár. Á þeim tíma óx hagvöxtur á mann í Bretlandi um 27,7% en á jafnlöngum tíma þar á undan um 32,4% og ellefu árin þar á undan um 36,7%. Hvað sem Thatcher gerði, þá var það ekki gott fyrir hagvöxtinn.

Ronald Reagan var forseti Bandaríkjanna í átta ár. Á þeim tíma óx hagvöxtur á mann í Bandaríkjunum um 18,1% en átta árin þar á undan um 22,1% og átta árin þar á undan um 24,6%. Hvað sem Reagan gerði, þá var það ekki gott fyrir hagvöxtinn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Davíð Oddsson var forsætisráðherra Íslands í þrettán ár. Á þeim tíma óx hagvöxtur á mann á Íslandi um 31,7% og hrundi síðan stuttu síðar. Þrettán árin fyrir Davíðstímann var hagvöxtur á mann 25,6%, þrettán árin þar á undan um 60,1% og þrettán árin þar á undan um 74,3%. Hvað sem Davíð gerði, þá var það ekki gott fyrir hagvöxtinn.

Hugo Chavez var forseti Venesúela í ellefu ár. Á þeim tíma óx hagvöxtur á mann í Venesúela um 35,7% en ellefu árin þar á undan hafði landsframleiðsla á mann í Venesúela dregist saman um 15,4% og ellefu árin þar á undan dróst landsframleiðslan einnig saman, um 10,1%, en nýfrjálshyggjan hafði leikið Venesúela illa eins og mörg önnur lönd Suður-Ameríku. Hvað sem Chavez gerði, þá var það gott fyrir hagvöxtinn.

Með þessum samanburði er ég ekki að halda því fram að Hugo Chavez hafi verið góður forseti. Aðeins að benda á að þegar nýfrjálshyggjupáfarnir hallmæla honum verður að hafa í huga að þau Thatcher, Reagan og Davíð voru miklu verri. Alla vega þegar hagvöxturinn er notaður sem mælikvarði, en nýfrjálshyggjupáfar láta oft sem sá mælikvarði sé algildur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: