Furðuskrif
„Það er alþjóðlega sakamáladómstólnum (ICC) til hneisu að leita handtökuheimildar á hendur ísraelskum ráðherrum og leiðtogum Hamas og grefur undan þeim alþjóðalögum, sem hann þykist vilja framfylgja. Þó ekki væri nema vegna þess að hann hefur hvorki lögsögu í Ísrael né Gasa; og sniðgengur í þokkabót eigin reglur um að reyna önnur réttarúrræði til þrautar.“
Þetta eru skrif ritstjóra Moggans sem hann birtir í dag.
„Með því að leita handtökuskipunar sameiginlega yfir lýðræðislega kjörnum valdamönnum í Ísrael, sem brugðist hafa til réttmætrar varnar ríkis síns, og hryðjuverkaleiðtogum Hamas, sem hófu þetta stríð með fjöldamorðum, nauðgunum og mannránum á óbreyttum borgurum og ítreka að árásirnar verði endurteknar uns Ísrael verður afmáð, er dómstóllinn að leggja það siðferðislega að jöfnu, sem stenst enga skoðun,“ segir í leiðaranum.
„Því það er siðblinda að leggja það allt að jöfnu. Það er siðblinda að sjá ekki mun á þeim sem drepa börn að yfirlögðu ráði og þeim sem verða börnum óviljandi að aldurtila þrátt fyrir að leggja sig í framkróka um að gera það ekki. Sjái ICC ekki mun á hryðjuverkum Hamas og hernaði Ísraels er siðferðislegur grundvöllur hans og dómsvald brostið.
Í gær lagði utanríkisráðherra Íslands blessun sína yfir þessa skammarlegu beiðni, áður en um hana hefur verið fjallað. Hún mun ekki binda enda á ófriðinn, heldur grafa undan dómstólnum og álasa Ísrael fyrir að verja hendur sínar.“
Svo mörg eru þau orð. Að láta sem fjöldi barna á Gasa hafi verið drepinn óvart er hreint með ólíkindum. Myndir og frásagnir segja okkur allt annað. Leiðarinn opinberar enn og aftur hug ritstjórans í Hádegismóum.