Jiang Zemin fyrrum forseti Kína er nýlátinn. Hann kom til Íslands í ævintýraferð í valdatíð Davíðs Oddssonar. Félagar úr Falung Gong komu til Íslands. Gefinn var út svartur listi yfir óæskilegt fólk. Kínverski forsetinn mátti hvergi sjá neitt sem var gult á litinn. Björn Bjarnason var dómsmálaráðherra og hafði í nógu að snúast. Hann lét breyta barnaskóla í Njarðvík í nokkurs konar fangelsi þar sem asíski ferðamenn, sem komu til Íslands, voru geymdir í þágu kínverska forsetans.
Jæja nóg um þetta. Davíð Oddsson sá ástæðu, vegna andláts þess kínverska, að segja „hetjusögu“ af sér. Sagan er birt í Reykjavíkurbréfi Moggans og er auðvitað nokkuð kjánaleg. Ekki síst fyrir þær sakir að Davíð nær að birta tvær fortíðarmyndir af sér í þessu eina og sama blaði. Hvergi er minnst á Björn og baráttu hans gegn mannréttindum fólksins í Falun Gong.
Davíð nefnir grobbsögu vikunnar „Lítil saga“. Nú er best að senda boltann upp í Hádegismóa:
„Zemin dvaldi alllengi hér, sat veislu hjá gestgjafanum, kollega sínum, og sat á fundum með bréfritara í Þjóðmenningarhúsi, veislu í Perlunni og sótti bréfritara jafnframt heim til hádegisverðar á Þingvöllum, sem skartaði sínu fegursta, eins og sést á meðfylgjandi mynd. Það sem var óvanalegt var að eftir hádegisverðinn fékk forsetinn Þingvallabústaðinn til einkaafnota með sínu liði og hann kvaddi bréfritara í dyrunum og sagðist hlakka til að leggja sig í smástund á milli stríða.
Bréfritari er einn af þessum fækkandi furðufuglum sem er með ermahnappa til daglegs brúks. Góðvinur hans hafði fyrir einhverjum árum fært honum gullhnappa með kínversku letri. Þótti tilvalið að setja þá upp í einhverri af veislunum með forseta Kína. Málsverðurinn var svo sem hálfnaður þegar að Jiang Zemin rak augun í annan hnappinn. „Eru þetta ekki kínversk tákn“, spurði hann. Bréfritari jánkaði því og forsetinn teygði fram höndina yfir borðið til að skoða nánar. Svo ljómaði hann upp og sagði hnappana vera um „longevity“ og væru þeir sérlega fallegir. „Má ég ekki hafa heiðurinn af því að færa forsetanum þá að gjöf,“ var þá spurt. Og sú varð niðurstaðan. Ekki er þessi litla saga sögð til að eigna bréfritara það, að Zemin náði 96 árum á aldursklukku sinni.
Í Perlunni var góð stemning í veislu ríkisstjórnar fyrir Zemin. Skemmtiatriði voru hefðbundin, en það óvæntasta var að forsetinn stóð á fætur og söng þróttmikilli röddu einsöng „O sole mio,“ en bréfritari fékk sinn gamla góða söngkennara, tónskáldið Atla Heimi, óundirbúinn, til að leika undir. Var það prýðilegur lokapunktur.“