„Hvers vegna beinir Viðreisn ekki frekar sjónum að því málefni sem flokkurinn var stofnaður um?“
Þannig skrifar Davíð í Moggann í dag. „Getur verið að formaður flokksins telji að ef hún minnir of rækilega á að flokkurinn er stofnaður og starfar til þess að reyna að þvinga Ísland inn í Evrópusambandið þá fækki mögulegum kjósendum mjög?“
Tilefni reiðiskrifanna er að Þorgerður Katrín benti á að Sjálfstæðisflokkurinn og stjórnarflokkurinn í Póllandi tengjast vinaböndum. Bjarni varð ofsareiður á Alþingi og nú gengur Davíð í lið með honum. Í orðunum liggur að þeim þyki sem Þorgerður Katrín eigi ekkert upp á dekk í málum sem varpa skugga á Sjálfstæðisflokkinn. Hún geti bara talað um eitthvað allt annað. Tímalaus frekja.
„Getur verið að Viðreisn hafi ákveðið að reyna að sigla inn á þing undir fölsku flaggi á næsta kjörtímabili? Formaður Viðreisnar leitar sífellt nýrra leiða til að draga flokkinn niður í ómerkilegan popúlisma og virðist telja að nú þegar innan við ár er í kosningar þurfi smáflokkurinn með slæma málstaðinn að herða þennan róður,“ skrifar Davíð.
„Það er ömurlegt að Viðreisn skuli nota deilur um viðkvæmt málefni í Póllandi til að reyna að slá pólitískar keilur hér á landi,“ segir í Staksteinum dagsins.