Meðan flest okkar fyllast hryllingi vegna átakanna í Palestínu eru aðrir sem stökkva nánast hæð sína í loft upp af fögnuði yfir hernaði Ísraelsher á Gaza. Við sjáum ömurlegheitin alla daga. Börn í þúsundatali hafa látist. Ekki hafa þau verðskuldað þessi ömurlegu ævilok. Meðal okkar er fólk sem fagnar stríðinu og afleiðingum þess.
„Nú hefur landher Ísraels loks fikrað sig inn á Gasasvæðið í tveimur lotum og er því sú aðgerð hafin sem hafði verið boðuð strax eftir innrásina í Ísrael 7. október. Virðist augljóst að her Ísraels ætlar sér að fara hægt í sakirnar enda ítrekar hann að aðgerðirnar muni taka töluvert langan tíma. Markmiðið er að uppræta Hamas, ekki að valda manntjóni og eyðileggingu, þó óhjákvæmilegt virðist að til þess komi í nokkrum mæli ef berjast þarf um hvert hús líkt og Hamas hótar,“ segir meðal annars í leiðara Moggans í dag.
„Meðan á þeim aðgerðum stendur ætti þó að vera aðgengilegt að flytja vistir yfir landamæri Egyptalands í auknum mæli. Slíkir flutningar hafa aukist nokkuð upp á síðkastið, en eru þó fjarri því að duga. Þar er aðalhættan sú að Hamas reyni að sölsa það allt undir sig til þess að viðhalda ógnarstjórninni til síðasta dropa vatns eða blóðs.“ –sme