„Útlendingamálin eru í uppnámi og benti Birgir Þórarinsson þingmaður nýlega á að Þorsteinn Pálsson, fv. dómsmálaráðherra, segði Sjálfstæðisflokkinn bera ábyrgð á þeirri stöðu. Það vitnaði að mati Birgis um að hann vissi ekki hvernig kerfið virkar hér,“ segir í leiðara Moggans.
Birgir Þórarinsson, sem er þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en var kosinn á þing af kjósendum Miðflokksins. Hann sveik lit strax að loknum kosningum og gekk í ráðir Sjálfstæðisflokksins, hafði áður skrifað grein í Moggann þar sem hann talaði niður til Þorsteins Pálssonar.
Davíð skrifar:
Bendir Birgir á að Þorsteinn skipi sér nú í hóp Viðreisnar, sem styður óhefta móttöku hælisleitenda og sparar sig hvergi í þeirri kröfu. „Kærunefnd útlendingamála beri alla ábyrgð á því ófremdarástandi sem upp er komið. Nefndin er sjálfstæð í störfum og úrskurðir hennar endanlegir gagnvart stjórnvöldum. Hvorki ríkisstjórn né Alþingi segja nefndinni fyrir verkum né geta kært niðurstöður hennar til dómstóla.“
Áður en lengra er haldið verður að geta þess að málaflokkurinn hefur verið á forræði Sjálfstæðisflokksins, nánast lengur en elsta fólk man.
„Þetta er valdamikil nefnd, sem kostar 273 milljónir á ári. Vafasamar ákvarðanir nefndarinnar kosta skattgreiðendur milljarða.
Nefndin ákvað að allir þeir sem koma frá Venesúela fái fjögurra ára vernd og sömu réttindi og Íslendingar í velferðarkerfinu. Áhrifaríkasta leiðin til að ná tökum á stjórnleysi í flóttamannamálum segir Birgir að sé að leggja niður kærunefnd útlendingamála og færa úrskurðarvaldið í málaflokknum aftur til dómsmálaráðuneytisins.
Augljóst sé að nefndin ráði ekki við störf sín. Hún fylgir annarri stefnu gagnvart fólki frá Venesúela en aðrar Norðurlandaþjóðir og önnur ríki Evrópu. Noregur veitir engum frá Venesúela fjögurra ára vernd. Það sama gildir í Danmörku. Svíþjóð vísar meirihluta umsókna frá Venesúela frá. Spánn hafnaði rúmlega tíu þúsund umsóknum frá Venesúela á síðasta ári. Á Íslandi hafnar nefndin engum og þær fréttir bárust hratt til Venesúela.
Kærunefndin hefur ákveðið að svona skuli þetta vera. Dómsmálaráðherra ræður engu um það eða Alþingi, nema það leggi nefndina niður með lögum.“
Þungi þessara skrifa er ekki árás á Þorstein. Nei, það er árás á allt það fólk sem hefur farið með dómsmálin í landinu. Sem að langmestu kemur frá einum og sama flokknum, Sjálfstæðisflokknum.