Það hriktir í. Davíð er sprunginn. Getur ekki á sér setið. Hann sem hefur látið íslensk stjórnmál afskiptalaus í margar vikur gat ekki meir. Davíð var forsætisráðherra 1995 þegar snjóflóðin ógurlegu féllu í Súðavík og á Flateyri. Framganga hans þar og þá var til mikillar fyrirmyndar. Hann hafði vit á að lofa engu á sorgarstundinni.
Nú er Davíð nóg boðið. Hann skammar stjórnmálamenn. Aðallega Bjarna Benediktsson. Tilefnið er Ofanflóðasjóður. Í leiðara dagsins í Mogganum brjótast fram vonbrigði. Leiðarinn byrjar svona:
„Í umræðum í kjölfar síðasta snjóflóðs á Flateyri voru rifjuð upp viðbrögð þáverandi stjórnenda landsins eftir atburðina ógnvænlegu fyrir vestan árið 1995. Þeir gáfu loforð um að stofnað yrði til þess að hefja þegar vandaðan undirbúning og svo að tryggja í senn lagaramma og fjármuni til að gera stórfellt átak í snjóflóðavörnum landsins. Markmiðið væri að gera afgerandi breytingar til batnaðar og draga sem frekast væri fært úr snjóflóðaógninni. Og helst að koma í veg fyrir verstu áhrif þessara tegunda náttúruhamfara á þær byggðir landsins sem væru útsettar. Þar sem aðstæður gerðu það illgerlegt yrði á grundvelli aukinnar sérfræðilegrar þekkingar og öflugs eftirlits að taka ákvarðanir um takmörkun á þéttbýli á svæðum sem illfært væri að tryggja öryggi á við óhagstæðustu aðstæður.“
Davíð dvelur lengur við áföllin 1995. „Í þessi mál var gengið af mikilli festu og um það allt reyndist góð samstaða flokka. Og á það var einnig minnt að átaki af þessu tagi fylgdi óhjákvæmilega að landsmönnum væri sendur reikningurinn og eins hitt að þótt þeir væru að vonum þreyttir á hversu mikill kostnaður væri hengdur á fasteignir þeirra, þá var velvildin og samkenndin svo rík í þessu máli að varla nokkur maður fann að þessu viðbótargjaldi.
Í framangreindri yfirferð var getið upplýsinga um að þegar hefði verið varið 21 milljarði króna að núvirði til þessa verkefnis og eins þess að gert væri ráð fyrir því að annað eins þyrfti til að ljúka verkefninu að fullu.“
Nú blasir við að núverandi stjórnvöld og þau sem á undan þeim fóru hafa misfarið með peninga Ofanflóðasjóðs. Davíð skrifar:
„Því var haldið fram af trúverðugum aðilum að í rauninni væri búið að innheimta af húseigendum landsins þann 21 milljarð sem vantaði til að klára verkið! Þeir peningar stæðu þó ekki ónotaðir í hirslum Ofanflóðasjóðs heldur væri búið að eyða þeim að geðþótta yfirvalda! Meðal annars hefði þeim verið varið til að moka í holur við fjárlagagerð!“
Þessi er nú staðan og ekki nema von að fjúki í mann og annan. Davíð heldur áfram:
„Loforð sem fasteignaeigendum voru gefin í upphafi málsins hafa því verið að engu höfð, sem er forkastanlegt, svo fastar sé ekki kveðið að. Og það sem enn verra er að víða býr fólk við alvarlega hættu, sem hægt hefði verið að bægja í burtu eða draga verulega úr ef stjórnvöld hefðu haldið því striki sem dregið var í upphafi með góðri samstöðu þingheims og byggt var á ríkri samkennd þjóðarinnar.“
Vel orðað hjá Davíð. Samkennd. Er hún ekki lengur til staðar? Hefur græðgisvæðingin eytt samkenndinni?
„Vel má vera að einhver búi yfir vitneskju um það hvers vegna þetta mikilvæga mál hefur verið svo illa afvegaleitt. Og þá jafnframt hverjir hafi stýrt þeim verknaði. En sú vitneskja er örugglega ekki almenn. Langflestir hafa verið í góðri trú,“ skrifar Davíð Oddsson og segir svo að rannsaka verði hvers vegna mál fóru á þann veg sem raun er á.
-sme