- Advertisement -

Davíð lofaði en Bjarni sveik

Það hriktir í. Davíð er sprunginn. Getur ekki á sér setið. Hann sem hefur látið íslensk stjórnmál afskiptalaus í margar vikur gat ekki meir. Davíð var forsætisráðherra 1995 þegar snjóflóðin ógurlegu féllu í Súðavík og á Flateyri. Framganga hans þar og þá var til mikillar fyrirmyndar. Hann hafði vit á að lofa engu á sorgarstundinni.

Nú er Davíð nóg boðið. Hann skammar stjórnmálamenn. Aðallega Bjarna Benediktsson. Tilefnið er Ofanflóðasjóður. Í leiðara dagsins í Mogganum brjótast fram vonbrigði. Leiðarinn byrjar svona:

„Í umræðum í kjöl­far síðasta snjóflóðs á Flat­eyri voru rifjuð upp viðbrögð þáver­andi stjórn­enda lands­ins eft­ir at­b­urðina ógn­væn­legu fyr­ir vest­an árið 1995. Þeir gáfu lof­orð um að stofnað yrði til þess að hefja þegar vandaðan und­ir­bún­ing og svo að tryggja í senn lag­aramma og fjár­muni til að gera stór­fellt átak í snjóflóðavörn­um lands­ins. Mark­miðið væri að gera af­ger­andi breyt­ing­ar til batnaðar og draga sem frek­ast væri fært úr snjóflóðaógn­inni. Og helst að koma í veg fyr­ir verstu áhrif þess­ara teg­unda nátt­úru­ham­fara á þær byggðir lands­ins sem væru út­sett­ar. Þar sem aðstæður gerðu það ill­ger­legt yrði á grund­velli auk­inn­ar sér­fræðilegr­ar þekk­ing­ar og öfl­ugs eft­ir­lits að taka ákv­arðanir um tak­mörk­un á þétt­býli á svæðum sem ill­fært væri að tryggja ör­yggi á við óhag­stæðustu aðstæður.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

…þá var vel­vild­in og sam­kennd­in svo rík…

Davíð dvelur lengur við áföllin 1995. „Í þessi mál var gengið af mik­illi festu og um það allt reynd­ist góð samstaða flokka. Og á það var einnig minnt að átaki af þessu tagi fylgdi óhjá­kvæmi­lega að lands­mönn­um væri send­ur reikn­ing­ur­inn og eins hitt að þótt þeir væru að von­um þreytt­ir á hversu mik­ill kostnaður væri hengd­ur á fast­eign­ir þeirra, þá var vel­vild­in og sam­kennd­in svo rík í þessu máli að varla nokk­ur maður fann að þessu viðbót­ar­gjaldi.

Í fram­an­greindri yf­ir­ferð var getið upp­lýs­inga um að þegar hefði verið varið 21 millj­arði króna að nú­v­irði til þessa verk­efn­is og eins þess að gert væri ráð fyr­ir því að annað eins þyrfti til að ljúka verk­efn­inu að fullu.“

Nú blasir við að núverandi stjórnvöld og þau sem á undan þeim fóru hafa misfarið með peninga Ofanflóðasjóðs. Davíð skrifar:

„Því var haldið fram af trú­verðugum aðilum að í raun­inni væri búið að inn­heimta af hús­eig­end­um lands­ins þann 21 millj­arð sem vantaði til að klára verkið! Þeir pen­ing­ar stæðu þó ekki ónotaðir í hirsl­um Of­an­flóðasjóðs held­ur væri búið að eyða þeim að geðþótta yf­ir­valda! Meðal ann­ars hefði þeim verið varið til að moka í hol­ur við fjár­laga­gerð!“

Þessi er nú staðan og ekki nema von að fjúki í mann og annan. Davíð heldur áfram:

Og það sem enn verra er að víða býr fólk við al­var­lega hættu.

„Lof­orð sem fast­eigna­eig­end­um voru gef­in í upp­hafi máls­ins hafa því verið að engu höfð, sem er forkast­an­legt, svo fast­ar sé ekki kveðið að. Og það sem enn verra er að víða býr fólk við al­var­lega hættu, sem hægt hefði verið að bægja í burtu eða draga veru­lega úr ef stjórn­völd hefðu haldið því striki sem dregið var í upp­hafi með góðri sam­stöðu þing­heims og byggt var á ríkri sam­kennd þjóðar­inn­ar.“

Vel orðað hjá Davíð. Samkennd. Er hún ekki lengur til staðar? Hefur græðgisvæðingin eytt samkenndinni?

„Vel má vera að ein­hver búi yfir vitn­eskju um það hvers vegna þetta mik­il­væga mál hef­ur verið svo illa af­vega­leitt. Og þá jafn­framt hverj­ir hafi stýrt þeim verknaði. En sú vitn­eskja er ör­ugg­lega ekki al­menn. Lang­flest­ir hafa verið í góðri trú,“ skrifar Davíð Oddsson og segir svo að rannsaka verði hvers vegna mál fóru á þann veg sem raun er á.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: