Ég kann nokkrar sögur af Davíð Oddssyni. Bæði skemmtilegar og svo aðrar yfirmáta leiðinlegar. Ætli samt ekki að segja eina einustu. Ekki að sinni hið minnsta.
Davíð hefur skömm á kommúnistum. Það kemur skýrt fram í Staksteinum dagsins. Hann nýtir sér skrifa Jóns Magnússonar, sem Miðjan nýtti sér vel í gær.
Jón skrifaði um Katrínu Jakobsdóttur og Davíð tekur upp: „…því yfir að hún væri hugmyndafræðilega skyld þeim Bernie Sanders hinum ameríska og Varoufakis hinum gríska.“
Svo fer Davíð á fullt skrið: „Bernie Sanders er maður sem dásamar kommúnistastjórnirnar á Kúbu og Venesúela. Vegna óstjórnar í Venesúela streyma hingað hælisleitendur sem flýja dýrðarríkið, sem ætla má að þau Bernie og Katrín hafi svo miklar mætur á. Þá vill Bernie þessi gera allt fyrir alla á annarra kostnað eins og góðir sósíalistar gera jafnan þangað til þeir eru búnir með peninga annarra.“
Davíð er meira en ofboðið og spólar í sama drullufarinu: „Svo er það hugmyndafræðilegi skyldleiki forsætisráðherra og fyrrum fjármálaráðherra Grikklands Varoufakis sem fór úr ríkisstjórn róttæks sósíalistaflokks, af því að hann var ekki nógu róttækur fyrir kommúnistann Varoufakis. Varoufakis hefur mikið og stórt horn í síðu frjálsrar samkeppni og markaðsbúskapar. En sú hugmyndafræðilega nálgun hans fellur heldur betur í kramið hjá íslenska forsætisráðherranum.“
Jæja, ekki er allt búið enn. Davíð telur sig hafa náð í hnakkadrambið á Katrínu og Svandís. „Íslenski heilbrigðisráðherrann, flokkssystir forsætisráðherra, framkvæmir nú sem mest hún má stefnu þeirra Katrínar og Varoufakis með þeim afleiðingum að fjöldi fólks er á biðlista eftir bráðaaðgerðum og þarf að bíða mánuðum og jafnvel árum saman sárþjáð eftir nauðsynlegum aðgerðum af því að vondu kapítalistarnir á Íslandi mega ekki græða og þá er betra að velja dýrari valkost jafnvel þó að útlendir kapítalistar græði.“