En hitt var jafnvíst að slík tortryggni um þýðingarmikinn málaflokk gat borið dauðann í sér. Dæmin frá 1956-58 og 1971-74 eru kunn og hvorug stjórnin sat út kjörtímabilið.
Davíð Oddsson dregur hvergi af sér þegar hann skammast við Þórdísi K.R. Gylfadóttur utanríkisráðherra. Áður en það verður skoðað er rétt minnast þess að eitt sinn var Davíð utanríkisráðherra. Í tæpt eitt ár. Hann setti algjört met í skipan nýrra sendiherra. Nóg um það. Alla vega í bili.
„Flumbrugangur í utanríkisráðuneytinu í viðkvæmu máli er fjarri því að vera til fyrirmyndar. Nú er fyrir löngu svo komið að tveggja flokka stjórnir heyra sögunni til. Það er alþekkt kenning að ríkisstjórn sé ekki fjölskipað stjórnvald og lögð er áhersla á, að hver „fagráðherra“ fari með endanlegt vald í sínu ráðuneyti, og í áherslunni á að ríkisstjórnin sé ekki fjölskipað stjórnvald felst það að ekki eru greidd atkvæði þar, til að knýja fram niðurstöðu,“ segir í Staksteinum dagsins.
„Allt er þetta rétt og satt. En það þýðir þó ekki að mál séu keyrð í gegn í ríkisstjórn af einum fagráðherra, ef fyrir liggur að verulegur ágreiningur er þar um afgreiðslu mála. Þótt það kunni að vera í takt við lagabókstafinn og tæknilega rétt, þá má gefa sér að vinnubrögð af því tagi grafi smám saman undan nauðsynlegri sátt í ríkisstjórn.
Málefni utanríkisráðuneytis eru sérlega viðkvæm og þess vegna hafa forystumenn í ríkisstjórn nær undantekningarlaust gætt þess vel á liðnum árum að náið samstarf sé á milli forystumanna stjórnarliðsins um slík mál. Á meðan tveggja flokka samstarf var lífvænlegt í skjóli þingstyrks var vel vitað að forsætisráðherra og utanríkisráðherra á hverjum tíma áttu náið samstarf um utanríkismál, enda alþekkt að oddvitar ríkisstjórna einstakra landa hlutu að eiga náið samband og samstarf varðandi ákvarðanir á sviði utanríkismála.
En andstæðan er líka þekkt um hina hliðina, að pólitísk tortryggni innan ríkisstjórna væri svo mikil, og þá ekki síst varðandi utanríkis- og varnarmál, að talið var að utanríkisráðherra í vinstristjórn ætti fremur trúnað forystumanna stærsta stjórnarandstöðuflokksins á þingi, sem var þá um leið stærsti stjórnmálaflokkur landsins, þótt hann væri utan stjórnar um hríð. En hitt var jafnvíst að slík tortryggni um þýðingarmikinn málaflokk gat borið dauðann í sér. Dæmin frá 1956-58 og 1971-74 eru kunn og hvorug stjórnin sat út kjörtímabilið.
En þótt nú sé þannig komið að ríkari sátt sé um veruna í Nató og eftir atvikum um samstarfið í varnarmálum hafa lögmálin um samstarf ekki breyst í grundvallaratriðum.“