Davíð rifjar upp hrunið og eftirmála þess í Reykjavíkurbréfi dagsins. Hreykir sjálfum sér sem aðalbankastjóra Seðlabankans.
„Vinstristjórnin taldi sig eiga harma að hefna vegna samfelldra kosningaósigra um háa herrans tíð. Þeir höfðu ekki lengur kjark eða hugmyndaflug til að átta sig á að þeir áttu að „hefna sín“ með því að höfða til kjósenda. Eftir að hafa staðið fyrir áhlaupum á þinghús þjóðarinnar og stillt þar upp sérkennilegum „fræðimönnum“ sem til voru í allt nema sannleikans vegi, þá komust þeir loks í ríkisstjórn,“ segir í Reykjavíkurbréfinu og enn eiga skrifin eftir að aukast.
„Og þá fékk þjóðin heldur betur að finna til tevatnsins. Þá höfðu verið teknar allar meginákvarðanir gagnvart eyðileggingu bankanna af þeim sem höfðu komist yfir þá fáeinum árum áður. Á því var tekið af Seðlabankanum og ríkisstjórn með þeim eina hætti sem dugði. Allar aðrar aðferðir hefðu knúið þjóðina í gjaldþrot, eins og reynt var í lengstu lög, með því að halda í Icesave-leiðina, leiðina til glötunnar. Kostir Íslands voru ekki margir. Raunar aðeins einn. Sá sem Seðlabankinn lagði til.“
Nú segja eflaust einhverjir obbobobb. Höldum áfram með skrif ritstjórans í Hádegismóum.
„Ambrose Evans-Pritchard, sem skrifaði af mestu viti allra um bankakeppuna í Evrópu og Bandaríkjunum 2007-2008, útskýrir stöðuna réttilega svo í Telegraph nýliðinn föstudag, sem sýnt er á ensku í „punktinum“ hér á undan: „Sviss er ekki Ísland. Áhættufíkla-trío íslenskra banka, sem höguðu sér eins og vogunarsjóðir, söfnuðu slíkum ógnarskuldum, að þeir hefðu gert Ísland gjaldþrota 2007, hefði Reykjavík ekki afneitað þessu tjóni og látið London, Amsterdam og New York um að hreinsa upp drulluna.“ Íslenskur Hæstiréttur mat stöðuna rétt og sýndi kjark með dómi sínum um neyðarlögin. Breska ríkið undir forystu Gordon Brown reyndi með fantabrögðum að knýja Ísland til uppgjafar. Honum varð ekki kápan úr því klæðinu. Ómerkingar í íslensku ríkisstjórninni áttu eftir að fara mestu kosningahrakfarir sem ríkisstjórn hafði gert, eftir ódrengskapinn gagnvart þeim sem síst skyldi. Kjósendur, líka þeir sem sáu eftir að hafa svarað kalli þeirra um árás á Alþingishúsið dag eftir dag, veittu þeim makleg málagjöld.“
Seðlabanka-stjórinn fyrrverandi:
„Íslenski seðlabankinn hélt höfði í darraðadansi og svikum þeirra tíma. Það munaði öllu fyrir Ísland.“
Nú skrifar Davíð ritstjóri um sjálfan sig og veru hans í Seðlabankanum:
„Íslenski seðlabankinn hélt höfði í darraðadansi og svikum þeirra tíma. Það munaði öllu fyrir Ísland. Í baráttu sinni við verðbólguna nú er hann ekki einn á ferð í baráttunni, eins og ætla mætti af dálítið sérkennilegri umræðu hér á landi. Andrew Bailey, aðalbankastjóri Englandsbanka, sagði í gær á fundi með fréttamönnum, að sjá yrði ákveðin og skýr merki um að verðbólgan væri farin að gefa eftir til að geta réttlætt að stíga á bremsu vaxtahækkanaferlis, sem hefur hækkað hraðar nú, en gerst hefur í þrjá áratugi. Neysluverðsvísitalan hækkaði upp í 10,4% úr 10,1% í febrúar. Hlutabréf í Deutsche Bank, sem er einn af stærstu bönkum Þýskalands, og sendir ekki frá sér styrkleikamerki núna, þvert á móti, lækkuðu um 14% á föstudag, en það lagaðist nokkuð þegar leið á daginn og endaði í 8% lækkun. Hefur Deutsche þá lækkað í verði um 20% á skömmum tíma. Sú sala brast á þegar skuldatryggingaálag banka hækkaði verulega, en það er þekktur hljómur í aðvörunarbjöllum banka. Bankar eins og Barclays, Nat West og HSBC höfðu verið að styrkjast á ný þegar flest benti til að „yfirvöld“ væru að ná tökum á bankatitringnum austan hafs og vestan. En nú eru fleiri slæm merki að berast en þau sem teljast góðkynja. Hafa því fyrrnefndir bankar fallið verulega á ný.“