Davíð Oddsson kemur, meðal annars, við á Klausturbarnum i Reykjavíkurbréfi dagsins:
„En af tilefni þessara ólánlegu frétta af barnum í Klaustrinu rifjaðist upp að breskur þingmaður í heimsókn hér upplýsti að í breska þinginu væru 23 barir. Sumir þeirra væru fyrir neðri deildina og aðrir fyrir lávarðadeildina og væru flestir þeirra opnir þeim blaðamönnum sem skráðir væru og samþykktir sem þingfréttaritarar.
Bréfritari vann að dagskrármálum um þingið fyrir Ríkisútvarpið með námi sínu í lagadeildinni fyrir 45 árum eða svo og starfaði svo sem þingfréttaritari fyrir Morgunblaðið ári síðar. Þar voru þá engir barir frekar en nú. Og ekki varð þess vart að óregla væri meiri í þinghúsinu þá en utan þess, nema síður væri. En viðurkenna má að eftir því sem skammdegið þyngdist og styttist í þinghlé fyrir jól er hugsanlegt að menn hafi „þvert á þingflokka“ skotist út á Borg, enda var fátt um fína drætti annars staðar. (Blaðasnápum var ekki boðið með.)
Og sjálfsagt var ekki alveg frítt við að einhver birgðasöfnun ætti sér stað til heimabrúks, sem eitthvað grynnkaði, áður en viðkomandi kom því heim.“
„Litli sómamaðurinn“
Sá maður sem hljóðritaði klámkjaftanna fær „vænt vink“ frá ritstjóranum,
„Á Íslandi fórnaði „litli sómamaðurinn“ sér í þetta. Hann sagði sjálfur að af þessum sex, sem töluðu svo hátt við borð, hefði hann aðeins þekkt einn í sjón, Sigmund Davíð. Hann ákvað þó að taka upp fjögurra klukkutíma spjall þingmannsins við, þess vegna fimm almenna borgara, sem hann hafði ekki hugmynd um hverjir væru! Er það virkilega? Er það þess vegna sem hann vill ekki láta nafngreina sig?“
Ritstjórinn ólesinn?
„Bréfritari hefur ekki sökkt sér niður í þessar frásagnir en það sem hæst hefur farið er einkar lágkúrulegt og lækkar mjög risið á þeim sem þar fóru með. Hitt er annað mál að þar sem menn koma saman á veitingastað við borð, jafnvel hvítþvegnir englar, bindindismenn og vegan sem hinir, þá er ekki þar með sagt að þeir þurfi að sæta því að samtöl þeirra séu hljóðrituð og birt, af því að þetta séu „opinberir staðir“.“
Og Davíð sjálfur
„Álitlegur fjöldi manns hefur um alllanga tíð séð um að halda til haga ýmsum göllum og annmörkum á persónu bréfritara og flestir án aukalauna, en sem betur fer hafa sumir fengið umbun fyrir. Þótt ekki sé gert lítið úr því verki er enn margt ósagt, sem væri svo hægt að ýkja, lita og margfalda til þess að gera myndina áhrifameiri.“
Margir hafa haft laun af því að fjalla um Davíð, það er rétt, bæði kosti hans og galla, eins og gengur. Sá sem þetta skrifar byrjaði í blaðamennsku á árinu 1987 og hefur skrifað drjúgt um stjórnmála- og embættismanninn Davíð. 1987 var Davíð borgarstjóri og síðar varð hann forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, seðlabankastjóri og nú ritstjóri sögufrægar útgáfu af Morgunblaðinu. Hvers vegna sögufrægrar? Jú, vegna þess að núverandi eigendur setja peninga í blaðið til að það verji kvótakerfið, haldi Íslandi utan ESB og verji stjórnarskrána. Þau eru markmið útgáfunnar. Mjög sérstakt.