Davíð gerir lítið úr gerð fjárlaga og deilir á Jóhönnu og RÚV / allt í einum pakka
Vinstristjórn Jóhönnu náði vissulega að vinna skaðræði á skattkerfinu.
„Stundum er að því vikið þegar horft er til kosninga að hausti að þá verði þrengra um fjárlagagerð. Þetta er þó aðallega fyrirsláttur,“ skrifar Davíð Oddsson, sem er reyndastur allra núlifandi af starfi í ríkisstjórn, gefur þar með þeim sem býsnast yfir að erfitt verði að koma fjárlögum saman eftir haustkosningarnar á næsta ári, fingurinn.
Davíð heldur áfram: „Eðli málsins samkvæmt er langstærsti þáttur fjárlagagerðar beinn eða óbeinn framreikningur og undirbúningur stendur lengi óháð kosningum eða stjórnmálaþróun. Þótt heitið geti að fjárlögin séu opin og stórbrotið stjórnmálalegt verkefni er langstærsti hluti þeirra bundinn. Breytingar eru því óverulegar og þurfa stjórnir helst að sitja fleiri en eitt kjörtímabil svo að vel marki fyrir.“
Nú fellur á fjármálaráðherrann og fjárlaganefndina. Davíð fellir starf þeirra. Segir það lítið og varla svo orð sé á gerandi. Allt meira og minna forunnið. Þó ekki alveg. Enn er það Jóhanna og hennar ríkisstjórn. Já, og Ríkisútvarpið. Lesum:
„Þegar ný ríkisstjórn sest að völdum getur hún á skömmum tíma sett táknrænt mark á fjárlögin en reyndin er sú að þakka má fyrir ef einbeitt ríkisstjórn nær fram sögulegum breytingum á einu kjörtímabili. Vinstristjórn Jóhönnu náði vissulega að vinna skaðræði á skattkerfinu á sinni tíð en þá var stjórnarandstaðan óvirk og lömuð vegna þeirra atburða sem orðið höfðu og ástands sem búið var að æsa til með sögulegum atbeina Ríkisútvarpsins og fjölmiðla þeirra sem voru höfuðpaurarnir í hinum íslenska þætti áfallsins.“
Þar sjáum við það. Vinstri stjórn, sem var svo engin vinstri stjórn, og RÚV unnu saman skaðræði á systeminu.
Niðurstaða Davíðs: „Tal um fjárlagagerð í tilefni væntanlegra haustkosninga er því marklaust þegar horft er til kosninga að hausti.“