Bjarni Benediktsson hefur sagt að það hafi kostað sig blóð, svita og tár að komast í núverandi ríkisstjórn. Forvera hans á formannsstóli, Davíð Oddssyni, þykir ekki mikið til koma. Hjá Davíð fær Bjarni ekki háa einkunn:
„Undanlátssemi við helmingi minni þingflokk stjórnarsinna, sem hafði fengið í forgjöf stól forsætisráðherra og forseta þingsins, án þess að það væri vegið upp með málum sem væru í sjáanlegum efnum í anda stærri flokksins,,“ segir í Reykjavíkurbréfi morgundagsins.
Davíð skýrir mál sitt betur:
„Fréttamenn velta sér gjarnan upp úr því, hve mikil fórn felist í því af hálfu VG að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, eins og hann tæki helst til holdsveikra manna. Undirliggjandi virðist að sá flokkur hljóti að vera eilíflega þakklátur fyrir að hafa fengið að lúta leiðsögn helmingi minni stjórnarflokks (níu þingmenn) í ríkisstjórn, eins og það séu aðrir eðliskostir Vinstri-grænna sem geri það að þakkarefni að Sjálfstæðismenn megi kyssa skóna þar.“
…sátu þó áfram í þingflokknum og ræddu þar málefni ríkisstjórnarinnar…
Þeir eru ekki sama sinnis formennirnir tveir, Davíð og Bjarni. Bjarni kostaði til blóð, svita og tárum og fékk að launum fjármálin, dómsmálin og sjávarútveginn. Alla helstu hagsmunina. Að auka ferðamálin og utanríkismálin sem eru veigaminnst.
Davíð er ekki hættur. Hann greinir Vinstrigræn:
„Í vikunni fækkaði um enn einn í flokki Vinstri-grænna. Þá var fækkunin í þingflokknum orðin tæp 20%.
Á það hefur verið bent að þessi fækkun í þingflokki Vinstri-grænna myndi ekki hafa nein áhrif á stuðning ríkisstjórnarinnar á þingi, því að vitað var að tveir þingmenn af 11 styddu ekki ríkisstjórnina. En þeir sátu þó áfram í þingflokknum og ræddu þar málefni ríkisstjórnarinnar þegar þau voru í farvatninu, sem er algjör nýlunda. Þess var jafnan gætt áður að þingmenn sem ekki styddu ríkisstjórn hyrfu út af þingflokksfundum þegar mál hennar voru þar til umræðu. Frá fyrstu dögum núverandi ríkisstjórnar hafa iðulega borist af því fregnir að „órói sé kominn upp hjá þingflokki VG“ og voru þá oftar en ekki þeir þingmenn nefndir sem ekki voru í stuðningsliði ríkisstjórnarinnar! Og enn skrítnara var að samstarfsflokkar forsætisráðherrans töldu oft að óhjákvæmilegt væri að koma til móts við þennan „óróleika“ stjórnarandstæðinga í þeim flokki! Aldrei bárust fréttir um að sambærileg „óróleikamerki“ væru í hinum 17 manna þingflokki Sjálfstæðismanna sem taka yrði sérstakt tillit til.“