Sumir morgnar með Davíð Oddssyni eru skemmtilegir. Eftir því sem ólund ritstjórans er meiri, því er meira gaman. Hann bregst ekki í dag. Hann mundar þríhleypuna. Skotmörkin eru þrjú; að venju er Guðlaugur Þór Þórðarson fyrsta skotmark, þá Katrín Jakobsdóttir og svo „eðalfulltrúinn“ Guðni Th. Jóhannesson forseti.
Fyrst að Gulla. Gullu veit það sennilega manna best að hann hljóp á sig þegar Trump lokaði eigin landamærum. Það er eitt. Hið virðist alvarlegra að hann kann að hafa sært meinta vini ritstjórans þar vestra.
„Samtal utanríkisráðherra Íslands og Bandaríkjanna í síma hefur nú átt sér stað en þeir þar höfnuðu beiðni um fund. Samkvæmt frásögn héðan af samtalinu verður þó ekki séð að það hafi farið fram. Guðlaugur nefnir aðeins að honum hafi verið klappað á kollinn vegna viðbragða sóttvarnalæknis. Var það eina erindið?“
Þannig skrifar ritstjórinn og er stórum móðgaður fyrir hönd meintra vina sinna. „Æfingar á vörnum Íslands voru blásnar af þegar Trump lokaði á Evrópu án þess að bera það undir Guðlaug. Látum vera ef Guðlaugur hefði hætt í reiðikasti við að æfa varnir sínar gegn árásum á Bandaríkin. Enda mikið verkefni.“
Auðvitað Davíð spælir Gulla. Þinglið Sjálfstæðisflokksins, af óþekktum ástæðum, vill forðast að vera tekið fyrir í Staksteinum. Flestum öðrum finnst gaman af því. En það er annað mál.
„Þegar ráðherrann sá undrunarsvip landa sinna breytti hann fréttinni af sjálfum sér. Þessar æfingar, sem hann hafði bannað, höfðu eiginlega hætt sér sjálfar því að varnarmenn hefðu ekki komist heim aftur vegna lokunar á Evrópu!“
Þá er það hlaup númer tvö: „Þegar varaforseti Bandaríkjanna kom hingað hékk í því að það næðist í tíma að rétta forsætisráðherra af sem sagðist ekki geta hitt varaforsetann því hún þyrfti að lesa upp ávarp yfir skandinavískum verkalýðsforingjum á árlegum fundi sem aldrei reynist fréttnæmur.“
Nú sannast enn og aftur réttmæti þess sem Davíð svaraði þegar hann var spurður hvort hann væri langrækinn. Hann sagði svo ekki vera. En sagðist hins vegar vera minnugur. Ótrúleg virðing Davíðs fyrir Repúblikönum og Clinton er ómæld.
Davíð vildi verða forseti. Fékk aðeins 13,7 prósent. Úr síðasta hlaupinu skýtur að forseta Íslands. Guðna Th. Jóhannessyni. Stórmóðgaður fyrir hönd meintra vina fyrir vestan. „Aðrir eðalfulltrúar Íslands mættu svo með lituð bönd um úlnliði til að senda varaforsetanum skilaboð!“
Nú minnir Davíð óneitanlega á Bjarna formann. Sá sagði þingmann vera í „sitthvorum“ sokknum. Þeir félagarnir Davíð og Bjarni virðast hafa meira en nóg af hégóma. Kannski á það við um fleiri íslensk fyrirmenni.