Davíð Oddsson gefur ekki mikið fyrir ráðherrana. „Ráðherrar verða sífellt máttlausari í ráðuneytum „sínum“ og koma oftar en áður fram sem blaðafulltrúar þeirra en ekki eins og þeir sem alla ábyrgð bera.“
Tilefnið er staða Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra. Davíð taldi sig gera Haraldi vinargreiða með langa viðtalinu í Mogganum. Staða hans breyttist mikið til hins verra við viðtalið. „En orð mín um spillingu hafa fengið óvænt flug og verið útfærð í þá veru að ég hafi sagt að það sé grasserandi almenn spilling innan lögreglunnar. Það hef ég aldrei sagt, hvorki í þessu viðtali né annars staðar. Þannig að þeir sem halda þessu fram ættu að lesa þetta viðtal,“ segir Haraldur í Mogganum í dag.
Davíð vill að ráðherrar ráði meiru en þeir gera í dag. Ekki síst við stöðuveitingar:
„Mannaval „kerfisins“ hefur smám saman verið tekið úr höndum ráðherrans og fært að sögn til alviturra excel-skjala. En þau eru í höndum manna af holdi og blóði rétt eins og ráðherrann er, en hafa ólíkt honum ekkert raunverulegt umboð frá fólkinu í landinu og bera enga ábyrgð á sínum ákvörðunum sem þó eru sagðar endanlegar! Stjórnmálamenn eru fjarri því að vera hvítskúraðir englar. En það er hættuspil að kaupa þá ofsatrú á að excel-skjölin séu guðlegir pappírar eða öllu heldur þeir sem undir þau skrifa.“
Engum dylst að núverandi ólund snýr að Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra sem situr uppi með mál ríkislögreglustjóra. Sem er ekki lítið með Davíð á hliðarlínunni. Fjarri er að allt sé rétt sem Davíð segir og skrifar. Hér hittir hann naglann á höfuðið:
„En verði stjórnmálamenn nútímans spurðir um þetta þá munu þeir leita eftir svörum frá „fagmönnum“ og fá þau á disk eða spólu og ýta á „play“ og það verður lokasvarið af þeirra hálfu.“
Áslaug Arna verður að losa sig undan þessum „fagmönnum“.