Tökum örfá dæmi. Framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, framkvæmdastjóri Félags fjármálafyrirtækja, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu og framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins, sem og margir aðrir, eiga það sameiginlegt að vera sölumenn og að auki lobbýistar. Blaðamönnum ber að nálgast sölumennina af varúð. Sölumennirnir gera allt til að fjölmiðlar birti þá mynd sem hentar þeim best.
Davíð Oddsson stígur í afar einfalda gildru þegar ritstjórinn fellur fyrir sölumanni og gleypir sölutrixið. Bílgreinasambandið er regnhlífarsamtök bílasala. Þeirra hagur er að selja sem flesta bíla, hafa götur og vegi hannað og gerða fyrir sína einföldu hagsmuni, að selja bíla. Davíð kokgleypir þetta.
Davíð skrifar í Staksteina: „María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, fjallaði í grein í Morgunblaðinu í gær um árásir skipulagsyfirvalda í Reykjavík, eins og hún orðaði þær aðfarir réttilega, á bíleigendur.“
Það þarf ekki mikið til að sjá að hér er dýrt kveðið. Árásir. Árásir á bíleigendur. Meira bullið.
Það á líka við um ritstjóra.
„Þessi fjandskapur birtist meðal annars í langvarandi og viðvarandi framkvæmdastoppi umferðarmannvirkja í Reykjavík,“ hefur Davíð eftir fulltrúa bílasala.
Svo er það andstaðan við strætó. „Ljóst er að almenningssamgöngur verða ekki byggðar upp nema með gríðarlegum framlögum frá skattgreiðendum, meðal annars bíleigendum, sem eru skattlagðir um ríflega 80 milljarða króna á hverju ári“.
Blaðamenn verða að gæta sín á að taka orð sölumanna varlega. Það á líka við um ritstjóra. Viðmælanda sem hefur ríka hagsmuni að birtingu fréttar, eða leiðaraskrifum, verður að taka með öllum hugsanlegum fyrirvörum. Þessu gleymdi Davíð og tók orð sölumannsins fyrirvaralaust.
Fjölmiðlar mega ekki vera málpípur sölumanna vara eða hugmynda. Er það ekki svo Moggi?