Greinar

Davíð fær það óþvegið

By Ritstjórn

October 18, 2019

Hermann Guðmundsson: „Eigendur Morgunblaðsins gætu svo sannarlega litið í eigin barm og spurt sig afhverju þessi fjölmiðill dali hraðar en Sjálfsstæðisflokkurinn.“

Hermann Guðmundsson skrifar: „Fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og nú ritstjóri skrifar um það í dag að flokkurinn sé kominn í óásættanlega stöðu í skoðanakönnunum og það þurfti að ræða það á opnum vettvangi og fyrir opnum tjöldum hvernig á þessu standi.

Þetta hlýtur að teljast gott grín svona rétt fyrir helgina.

Á sama tíma og annar fyrrum formaður og varaformaður stofna flokk Evrópusinna og taka með sér marga flokksmenn sem sumir hverjir kosta útgerðina á Fréttablaðinu og Hringbraut þá tekur Morgunblaðið upp það nýmæli að ráðast af miklu afli á þann stjórnmálaflokk sem hefur í áratugi verið það afl sem hefur rutt brautina fyrir atvinnulífið og bætt lífskjör.

Á síðustu 10 árum hefur staða Íslands gjörbreyst efnahagslega og er nú svo komið að fáum löndum er til að dreifa sem bjóða þegnum sínum meiri lífsgæði. Þetta er ekki síst að þakka stefnufestu Sjálfstæðisflokksins, ábyrgum ríkisfjármálum og linnulausum uppgreiðslum á skuldum.

Það færi ritstjóranum betur að muna hvernig það er að standa í stafni á stórum stjórnmálaflokki þegar samherjar svíkja lit hver um annan þveran af eigin þrjósku, eigin metnaði eða hreinni óvild. Nóg er af slíkum dæmum.

Þegar kemur að kosningum þá trúi ég því að allir vinnandi landsmenn muni kjósa þannig að hagur þeirra muni halda áfram að vænkast og kjör þeirra afkomenda líka.

Eigendur Morgunblaðsins gætu svo sannarlega litið í eigin barm og spurt sig afhverju þessi fjölmiðill dali hraðar en Sjálfsstæðisflokkurinn og af hverju hægri menn finni ekki lengur hugsjónum sínum stað í blaðinu nema þá daga þegar Óli Björn Kárason ritar þar greinar.“

Skrifin birtust á Facebooksíðu Hermanns.