Í Reykjavíkurbréfi morgundagsins rekur Davíð Oddsson aldur áberandi stjórnmálamanna, austan hafs og vestan. Niðurstaðan er sú að Davíð, sem verður 71 árs eftir fáa daga, er ekki svo gamall og gæti því enn átt endurkomu í stjórnmálin, alla vega aldursins vegna.
Davíð byrjar þó hér heima.
„Fróðleiksmenn höfðu flett því upp að Ellert væri elsti maður sem setið hefði á Alþingi, en hann varð nýlega 79 ára. Mörgum varð hugsað til þess að óvænta fréttin væri frekar sú að enginn maður á þessum aldri eða eldri skyldi hafa setið á þingi þjóðarinnar.“
Evróputúrinn
„Árið 1964 flykktist múgur og margmenni að þinghúsinu í London þegar fréttist að Winston Churchill væri að hætta á þingi. Hann var þá níræður. Settist inn í bíl sinn reykjandi eðalvindil og gaf sigurmerkið.
Jú, segja menn, en hann var jú alveg einstakur sá karl, hvernig sem á hann var litið. Mikið rétt en ekki svo einstakur í umræddum efnum.
De Gaulle sagði óvænt af sér sem forseti Frakklands 78 ára gamall. Vinur hans, Konráð Adenauer lét af kanslaraembætti Þjóðverja 84 ára gamall. Ekki löngu áður hafði hann leitt barnabarn sitt og spurt drenginn hvað hann ætlaði að verða þegar hann yrði stór. „Kanslari, afi“ svaraði drengurinn. „Það er ekki laust“ svaraði afinn stuttur í spuna.
Látum vera með menn eins og Franco sem var einvaldur á Spáni þar til að hann lést 83 ára gamall. Hjá honum var kjörkassinn einn og án rifu og geymdur hjá herráðinu.
Berlusconi, sá gamli vinur bréfritara, heldur 82 ára enn um marga spotta á Ítalíu og er þá ekki átt við hlýra og bikinibönd.
Enginn leiðtogi nýtur eins mikils trausts í Bretlandi og Elísabet drottning sem verður 93 ára 21. apríl nk. og varla er vitað til þess að hún hafi misst dag úr vinnu. En hún þarf auðvitað ekki að horfa með hrolli til kjörkassanna.“
Ameríkutúrinn
„En sé horft til Bandaríkjanna og síðustu kosninga þar þá kemur margt fróðlegt í ljós. Dianne Feinstein, þingmaður öldungadeildar frá Kaliforníu, fékk mótframboð gegn sér innan flokks demókrata í nóvember sl. og þurfti því að hafa aðeins meira fyrir sæti sínu en venjulega. Feinstein verður 86 ára í júní og var kosin til 6 ára og verður því farin að halla í 92 árin þegar hún hugar að endurkjöri næst.
Mikið hefur verið látið með það, að demókratar hafi náð aftur meirihluta í fulltrúadeild þingsins sem þeir misstu í janúar 2011, þegar Obama hafði verið forseti í tvö ár af átta. Nancy Pelosi, sem var forseti deildarinnar þegar meirihlutinn tapaðist, var endurkjörin nú. Pelosi verður 79 ára í mars (jafnaldra Ellerts „gamla“) og er kosin til tveggja ára.
Nú eru demókratar sem óðast að stilla upp frambjóðendum sínum fyrir næstu forsetakosningar. Er fjöldi manna á ferðinni. Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, er sagður heitur. Hann verður 78 ára í nóvember 2020. Annar sem er sagður jafnvel enn heitari en Biden er Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri í New York. Hann er nærri ári eldri en Biden og hlýtur því að hafa forskot samkvæmt hinu nýja lögmáli. Bloomberg hefur sömu staðfestuna í stjórnmálum og Trump. Hann var lengst af demókrati, en bauð sig fram sem repúblikani í borgarstjóraembættið. Þegar hann leitaði eftir endurkjöri, sem hann fékk, var hann orðinn óháður og nú hefur hann nýlega gengið í Demókrataflokkinn aftur þar sem Trump og hann voru löngum flokksbræður. Bernie Sanders, sem náði ótrúlega góðum árangri í prófkjöri demókrata síðast og sýndi mikinn styrk og úthald, hefur sagst vera að íhuga framboð. Það hlýtur að styrkja Bernie að hann verður orðinn 79 ára á kjördag 2020 og slær þar með Biden og Bloomberg út að því leyti. Vandi þessara þriggja gæti verið sá að smástelpa, Elísabet Warren, hefur boðað forsetaframboð. Það hlýtur þó að há henni verulega að hún verður ekki nema 71 árs á kjördag í nóvember 2020 svo að hinir geta bent á að lágmarkskrafa sé að frambjóðendur hafi slitið barnsskónum fyrir kjördag. Þá hefur Warren það í sínu farteski að hafa kríað út sérstaka stöðu í háskóla forðum tíð út á þá fullyrðingu að hún væri af indjánum komin. Hefur hún ríghaldið í þá fullyrðingu og birti fyrir fáeinum mánuðum DNA-rannsókn sem átti að sanna ætternið. En sérfræðingar bentu á að nær allir Bandaríkjamenn væru meiri indjánar en Warren samkvæmt þessari mælingu.“