Davíð dregur Moggann niður í svaðið
Helga Vala: „…fjölmiðillinn Morgunblaðið er dreginn niður í svaðið með ritstjóranum og fjórða valdið skaddast.“
Helga Vala Helgadóttir Samfylkingu skrifar í dag, sem svo oft áður, grein í Moggann, sem hún hefur gert reglulega í nokkurn tíma. Segja má að grein dagsins sé einhverskonar uppsagnarbréf. Skrif dagsins eru um ritstjóra Moggans, Davíð Oddsson. Helga Vala hefur ekki miklar mætur á ritstjóranum:
„Því miður þá hefur ritstjórinn og þeir sem honum hlýða á ritstjórn blaðsins fallið ítrekað á fagmennskuprófinu. Vilji ritstjórans til að afvegaleiða umræðuna, fara fram með hálfsannindi og rógburð, dylgjur eða níð hefur því miður dregið fjölmiðilinn niður á slíkt plan að enn á ný stendur maður frammi fyrir þeirri spurningu til hvers í ósköpunum maður er að taka þátt í pistlaskrifum í sama blað. Tímasetningin er engin tilviljun enda hefur ritstjórinn um áratugaskeið beitt nákvæmlega sömu tækni. Það vita þeir sem starfað hafa með honum í stjórnmálum og víðar. Ef þú fylgir honum ekki í einu og öllu ertu á móti honum. Það er enginn millivegur og þá skipta staðreyndir eða sannleikur engu máli.
Tilgangurinn helgar meðalið, fjölmiðillinn Morgunblaðið er dreginn niður í svaðið með ritstjóranum og fjórða valdið skaddast. Eftir stendur viðfangsefnið, stundum laskað, stundum fíleflt en fjölmiðillinn og þar af leiðandi hið upplýsta samfélag ber skaðann.“