Davíð bombar á Katrínu og Sigurð Inga
Davíð: „Nu gjælder det að holde sammen.“ „Þeir sem voru í vafa um veika stöðu flugrekstrar voru vafalausir eftir þau samtöl.“
„Það er langt teygt að segja að opinber samtöl við forsætisráðherra og samgönguráðherra um stöðu félaga í flugrekstri hafi verið hjálpleg. Betra hefði verið að samtöl á efstu rim stjórnkerfisins hefðu farið hljótt aðeins lengur. Kannski var ekki kostur á því og því fór sem fór.“
Þetta er bein tilvitnun í Reykjavíkurbréf Davíðs Oddssonar í Mogga morgundagsins. Víst er að Davíð er ekki þessarar skoðunar.
„Þeir sem voru í vafa um veika stöðu flugrekstrar voru vafalausir eftir þau samtöl. Þeir sem fylgjast betur með sannfærðust eftir þetta um að sennilega væri styttra út á ystu nöf en gott er,“ skrifar ritstjóri Moggans og snuprar þar með ráðherrana tvo.
Skotið á Sigurð Inga: „Nu gjælder det at holde kjæft“
Og Davíð er ekki hættur.: „Samtölin voru óþægilega löng og óþægilega óljós, og einkum þó samtalið við samgönguráðherrann. Gamla reglan var sú, að hafi menn ekkert gagnlegt fram að færa komi til greina að þegja. Sú saga er kunn, að þegar að Noregur stóð frammi fyrir slitum sambandsins við Svíþjóð árið 1905 hafi skáldjöfurinn Björnstjerne Björnson sent Cristian Michelsen forsætisráðherra skeyti: Nu gjælder det að holde sammen.
Michelsen forsætisráðherra hafi svarað um hæl með skeyti: Nu gjælder det at holde kjæft (nu gjælder det at holde sig sammen, segja sumir). Skáldið fullyrti að þetta væri lygasaga.“
Skotið á Katrínu: Og loks 180 gráður á ný
Þá er komið að forsætisráðherra: „Í samtölum við forsætisráðherrann okkar, þar sem hann var gripinn á förnum vegi, kom fram að æðstu valdamenn landsins fylgdust nú mjög vel með fjármálum flugfélaganna og hefðu gert um nokkra hríð. Svo hófust vangaveltur um að flugfélögin væru fyrirtæki á einkamarkaði og ítrekað að ríkisvaldið væri ekki að undirbúa að hjálpa flugrekstrinum.
En svo slegið til baka og sagt „það er ekki ríkisábyrgð á flugfélögum hér á landi, svo að það sé sagt. Það sem við erum að gera, er að við erum að fylgjast vel með stöðu kerfislega mikilvægra fyrirtækja, því það getur auðvitað haft áhrif á stöðu efnahagsmála hér fram undan. Það er auðvitað mikilvægt að fylgjast vel með…“
Og svo aftur í hina áttina: „…en eins og ég sagði hér áðan þá eru þetta einkafyrirtæki á markaði.“
Og loks 180 gráður á ný: „„Þau skipta hins vegar máli fyrir þjóðarbúið þannig að það er það sem að okkur snýr,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.“