Enn aukast innanflokksátökin við Háaleitisbraut. Davíð Oddsson kyndir enn undir ófriðarbálið. Nema sökin sé núverandi forystu sem gerir ekkert með samþykktir landsfundar, að sögn Davíðs.
Viðbúið var að Davíð Oddsson yrði kröftugur í Reykjavíkurbréfi morgundagsins. Hann herðir tökin sem hann er með á forystu Sjálfstæðisflokksins. Bjarni, Þórdís Kolbrún og Áslaug Arna fá öll skvettur. Bjarni er aðalskotmarkið.
„Það var lengi óskráð meginregla í Sjálfstæðisflokknum, sem reyndist vel, að hversu öflugur sem formaður flokksins væri, sem þeir voru sannarlega langflestir, skyldi landsfundur eða flokksráðsfundur tryggja að sá sem næstur stæði formanninum hefði ríkulega stjórnmálalega reynslu ef örlög eða atvik höguðu því svo að fylla þyrfti skarðið yrðu góð tök á því,“ skrifar Davíð til að vekja athygli á lítt reyndum varaformanni sem og ritara flokksins.
„Aðrir flokkar höfðu á hinn bóginn ýmsan hátt á slíku. Stundum voru helstu valdamenn þeirra flokka ekki í leiðtogarullu, heldur t.d. ungur og ágætur flokksbróðir eða -systir sem sat þar með táknrænum hætti og fór að auki vel á mynd, þótt opinbert leyndarmál væri að aðrir færu með flokksumboðið og völdin sem því fylgdu. Þetta var t.d. þekkt bæði hjá Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki og reyndar fleirum,“ skrifar formaðurinn fyrrverandi.
Svo tekur fortíðarþráin yfir lyklaborðið í Hádegismóum:
„Hjá Sjálfstæðisflokki horfðu menn öruggir á Jón Þorláksson og við hlið hans Magnús Guðmundsson og Ólafur Thors, sem varð svo næstur honum. Heilsa Jóns bilaði og Ólafur hélt um flokksstýrið lengi með þeim glæsibrag að gneistar frá í minningunni. Einstæðir forystuhæfileikar, leiftrandi glaðbeittur baráttuvilji, bítandi gamansemi, sem Ólafi lánaðist oftast að stilla í hóf, svo að ekki sveið lengur undan en þurfti.“
Síðar, í langri umfjöllun Davíðs, sendir hann fösty skot að Bjarna núverandi formanni:
„Þá og alllengi síðar tóku menn landsfundarsamþykktir mjög alvarlega vegna þess að þeir tóku sjálfa sig og flokkinn sinn mjög alvarlega. Þeir hefðu ekki verið í þessu nema vegna þess að baráttan knúði þá áfram og baráttan skipti öllu.
Allt fram undir lokatíð bréfritara á þeim vettvangi fór formaður flokksins með uppköst landsfundarsamþykkta heim með sér á kvöldin á meðan á landsfundi stóð og teldi hann að eitthvað mætti betur fara eða eitthvað ylli misskilningi var strax rætt við flutningsmenn og lausn fundin.
Elstu menn sögðu að þannig hefði ætíð verið haldið á málum. Bréfritara þótti ekki ástæða til að breyta því.
Síðustu árin hefur virst að forystusveitinni sé nokkuð sama um hvað samþykkt sé á landsfundum, því að ekkert þurfi með það að gera.
Og eins og sést glitta í núna hika menn ekki í sínum erindrekstri að útskýra fengnar niðurstöður fólksins burt með útúrsnúningum, sem eru ögrun við skynsemi landsfundarfulltrúa.
Nú þykir fínt að reynslulítið fólk, sem hefur fengið pólitískt vægi með slíkt nesti langt umfram það sem áður tíðkaðist, tali niður til flokkssystkina sinna og leggi lykkju á leið sína til að vísa þeim sem eldri eru út úr umræðunni með þótta sem fer öllum illa.
Það kann ekki góðri lukku að stýra. Enn er eldra fólk í hópi góðra stuðningsmanna þessa flokks. Sé það virkilega svo, eins og þessir nefndu textar og hortugheit bera með sér, að haft sé horn í síðu þessa fólks er rétt að nýgræðingarnir frábiðji sér upphátt atkvæði þess til flokksins með afgerandi hætti.
Eins og stemningin er núna er líklegt að slíkri beiðni verði betur tekið en hefði verið endranær.“