Davíð heggur víða í leiðara dagsins. Ýkt viðbrögð Bjarna Benediktssonar, á Alþingi í gær, er tilefnið reiðikastsins í Hádegismóum. Davíð kýs að bera hönd fyrir höfuð Bjarna.
Davíð byrjar í Englandi:
„Litríkur forseti Neðri deildar breska þingsins er loks hættur og var það ekki vonum fyrr. Sá var raddsterkur og kraftmikill en ekki á lengdina. En þrátt fyrir mikil tilþrif var það of áberandi að þingforsetinn taldi að hinn aldagamli þingsalur og fundahaldið þar snerist eingöngu um hann.“ Ekki liggur fyrir hvor er meiri á lengdina, Davíð eða breski þingforsetinn fyrrverandi. Hæð manna á að vera og er aukaatriði. Aðeins síðar í þessum dæmalausa leiðara stendur:
„En eins og fyrr sagði hafði þessi misvitri þingforseti sumt með sér. Hann lét þingmenn í sínum sal, hátt á sjöunda hundrað ef allir mæta, ekki komast upp með rugl og fleipur.
Þannig hefði hann örugglega ekki látið þinginu haldast uppi að niðurlægja sjálft sig eins og gert var síðast í gær á Alþingi. Þá héldu nokkrir þingmenn uppi undarlegri tilraun til aðfarar að fjármálaráðherranum með svigurmælum um lögbrot án þess að nokkur leið væri að botna í hvað óvitarnir voru að fara. Það er auðvitað ekki hægt að gera mál úr Ágústi Ágústssyni þingmanni. Hann er sérstök blaðsíða. Án þess að hans ferill hafi verið kannaður sérstaklega mætti auðveldlega ætla að hann hefði átt erfiða æsku. Það kæmi því ekki á óvart ef upplýst væri að hann hefði ungur þurft að fikra sig út úr ljóslitlu braggahverfinu í átt að skólanum og þegar hann nálgaðist í götóttum sokkum í gúmmískónum, gerðum úr dekkjaafgöngum frá hernum, hefðu olíugreiddir kvótadrengir, puntaðir úr P. og Ó. veist að honum með oflæti.“
Hér er tilefni til að stoppa aðeins. Hér lætur Davíð öllum illum látum og reynir að litillækka Ágúst Ólaf Ágústsson þingmann Samfylkingarinnar. Einnig foreldra hans. Ósmekklegt með eindæmum.
Skoðum hinna bálreiða Davíð lengur:
„Það gæti hæglega verið ástæðan fyrir því að komi mál upp sem tengjast þorskum eða þilförum, þótt fjarlægt sé, eins og uppistand neðan úr Namibíu, ýti það svo illa við beiskum minningum sultaráranna að ekki verði við ráðið.
Þeir sem fylgdust með þinginu fyrir alllöngu muna þegar að jafnaði stilltur maður, sennilega með áþekku nafni umturnaðist í ræðustól yfir óréttlæti kvótans og þeirri ósvinnu að ekki hefði verið ákveðið að sporður yrði sendur inn um hverja lúgu og fyrr mætti enginn fá sporð númer tvö. Skammaði riddari réttlætisins þessa 62 kvótaeigendur í salnum eins og hunda fyrir græðgi þeirra og skilningsleysi sem hann væri einn um að andæfa.
Það fór ekki á milli mála að óréttlætið sveið þessa viðkvæmu sál samfylkingarmannsins sárlega. Ef ekki inn að beini þá örugglega langleiðina inn að veskinu hans. Það var aldrei fundið að óskiljanlegum stóryrðum þáverandi enda töldu menn að hann hefði sjálfsagt ekki verið minna fórnarlamb misskiptingar og eineltis vegna ævilangrar fátæktar en sá sem síðar fetaði á gatslitnum gúmmískónum í sporin hans. Kannski væri hægt að ná þessum tveimur þjökuðu sálum saman til skilningsríkra sérfræðinga sem gætu þrætt sig í gegnum þetta böl fátæktar og óréttlætis sem þjakar þá alla tíð.
En þrátt fyrir þessa ógnarfátækt tveggja kynslóða jafnaðarmanna, þá hefði þingforsetinn frekar átt að ná í áfallahjálp handa Ágústi og senda áfallahjálp 20 ár aftur í tímann handa hinum, þar sem hann hímir kannski undir skektu á hvolfi úti í Örfirisey eða öðru hreysi ekki fjarri.“
Þarna er Ágúst Einarsson faðir Ágústs Ólafs dreginn inn í vonskukastið mikla.
Oddný Harðardóttir fær létt bank frá forsætisráðherranum fyrrverandi í Hádegismóum: „Þetta var almennur og réttur fróðleikur hjá ráðherranum sem hefur legið fyrir áratugum saman. Þingmenn sem eitthvað þekkja til hljóta að vita það. Þingmönnum sem ekkert þekkja til verður hins vegar ekki bjargað nú fremur en áður. Það var að vísu skrítið að einn þingmaður Samfylkingar, þrútinn af reiði, sem hafði verið fjármálaráðherra í einhverja mánuði í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og verðskuldar því alla samúð, skyldi vera úti að aka í þessum efnum.“
Segir Samherjamálið sett upp á fjölum RÚV
„En að þessum erfiðu örlögum slepptum var uppþotið í þinginu í gær ekki að tilefnislausu, eins og það er þó að jafnaði. Því var spólað upp í óskiljanlegt rugl eftir að fjármálaráðherra hafði bent á að nokkurra daga gömul uppsetning á „RÚV“-fjölunum leiddi ekki af sér sjálfkrafa fjárvöntun, frekar en önnur mál sem spryttu upp. Eins og allir ættu að vita væri töluvert svigrúm fyrir hendi í víðtækum ríkisrekstri og að auki úrræði til að bregðast við sérstaklega ef þyrfti.“