„Dauðadóm sinn kvað hann upp og glotti, þorpsbúana hafði að háð og spotti.“ Þetta söng Bubbi og Tolli bróðir hans samdi. En hvers vegna er þetta skrifað hér?
Jú, eftir lestur greinar Jóns Gunnarssonar í Mogganum í dag komst ég ekki hjá því að söngla þessa fínu setningu og ekki við verra lag. Hvað á Kyrrlátt kvöld við fjörðinn og Jón Gunnarsson sameiginlegt. Vart er hægt að finna meiri andstæður.
Jón skrifar: „Þessi ríkisstjórn hefur nú setið við völd í á þriðja ár og skilaboðin til okkar eru skýr: Nú er kominn tími til að hefjast handa.“ Þó fyrr hefði verið, ágæti þingmaður Jón Gunnarsson. Þarna má segja að Jón hafi kveðið upp dauðadóm yfir ríkisstjórninni.
En hvað á þingmaðurinn við?
„Þessi verkefni eru um allt land og eiga það sammerkt að mynda grunn að eflingu samfélagsins. Það er ekki síður mikilvægt, við þær aðstæður sem nú hafa skapast og um hægist í hagkerfinu, að hið opinbera svari því með háu framkvæmdastigi og það strax. Slíkar ráðstafir yrðu til að auka á bjartsýni manna og gefa atvinnulífinu það súrefni sem það þarf á þessum tímamótum. Nú er tími til að láta hendur standa fram úr ermum, tími aðgerða er runninn upp og þess verður að sjá stað strax á þessu ári og þeim næstu.“
Obbobobb. Ég segi ekki meir. Jón Gunnarsson kveður upp dauðadóm og er nærri aftöku eigin ríkisstjórnar. Öruggt má telja að Jón, ritari Fálkans, eigi sér mörg skoðanasystkin um vanhæfi ríkisstjórnarinnar.
Það er gott hjá Jóni að standa upp og draga tjaldið frá. Meira svona, kunna margir að segja.
-sme