Dánartíðni af Covid er ofmetin
„Ég tel að nýjustu gögn bendi til að dánartíðni Covid hafi verið ofmetin, en við erum nú að ganga í gegnum eitt mesta efnahagsáfall sögunnar og því afar mikilvægt að hlúa að innviðum, andlegri heilsu og lágmarka skaðann fyrir sem flesta,“ skrifar Jón Ívar Einarsson prófessor við læknadeild Harvard-háskóla, í Moggann í dag.
Grein Jóns Ívar ágætlega yfirgripsmikil. Þar segir: „Vissulega eru afleiddir kvillar Covid líka mikilvægir og þarf að rannsaka það betur. Það er hins vegar ekki heillavænlegt að keyra á hræðsluáróðri til lengdar því fólk á Íslandi er skynsamt og vel upplýst og ef gögn styðja ekki skilaboðin þá fjarar smám saman undan samstöðunni. Það er líka mikilvægt að stjórnmálamenn taki ákvarðanir sínar byggðar á nýjustu og bestu upplýsingum.“
Jón Ívar segir einnig: „Hins vegar þykja mér aðgerðir á landamærum ekki í samræmi við þá stöðu sem við erum í nú og utan meðalhófs. Það gæti því miður verið of seint að breyta um stefnu þar því skaðinn er e.t.v. að mestu skeður, en þó skora ég á stjórnvöld að endurmeta þær ákvarðanir. Ég tek það skýrt fram að ég er ekki að tala fyrir því að opna landamærin upp á gátt, heldur að halda áfram með tvöfalda skimun í bili og taka upp heimkomusmitgát í stað sóttkvíar.“