Dánaraðstoð á Alþingi
„Ég skil þetta mál þannig, herra forseti, að verði það samþykkt sé hugsanlega aðeins tímaspursmál þar til umræður um að lögfesta rýmri rétt til að deyja verði teknar á Alþingi. Það hugnast mér ekki vegna þess að álitamálin eru mjög flókin og eiga sér siðferðilegar, faglegar, lagalegar og trúarlegar hliðar,“ sagði Birgir Þórarinsson Miðflokki á Alþingi þegar rætt var um skýrslubeiðni um dánaraðstoð.
Í greinargerð með skýrslubeiðninni segir meðal annars: „Flutningsmenn þessarar tillögu telja að forsenda þess að umræðan geti þroskast og verið málefnaleg sé að fyrir liggi upplýsingar um stöðu þessara mála í öðrum löndum, svo og upplýsingar um afstöðu heilbrigðisstarfsfólks. Mikilvægt er að stjórnvöld safni þeim upplýsingum saman og setji fram á skýran og hlutlausan hátt. Beiðni þessi felur ekki í sér afstöðu til þess hvort ástæða sé til að breyta lögum hérlendis. Tilgangurinn er að treysta grundvöll nauðsynlegrar umræðu um viðkvæmt mál.“
„Ég held að það sé mjög áhugavert að vita afstöðu heilbrigðisstarfsmanna því að nýlega fengum við upplýsingar um að 77% svarenda í könnun Maskínu væru hlynnt dánaraðstoð,“ sagði Bryndís Haraldsdóttir Sjálfstæðisflokki, en hún fer fyrir þingmannahópnum sem stendur að beiðninni.
„Ekki veit ég hvernig ég myndi velja ef ég stæði frammi fyrir valinu en það er það sem skiptir máli. Valið er það sem er mikilvægt og þess vegna styð ég að sjálfsögðu þessa skýrslubeiðni heils hugar,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírati.