Dagurinn hennar Svandísar, kafli 2
„Það er engin glóra í þeirri sviðsmynd sem birtist okkur í umræðunni um liðskiptaaðgerðir.“ „Þetta er fráleit ráðstöfun fjármagns og svar ráðherrans að ekki sé gert ráð fyrir fjármunum til að framkvæma aðgerðirnar hér heima er algerlega út í hött.“
Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa fengið nóg, að virðist, af stjórn Svandísar Svavarsdóttur, Það eru þau Jón Gunnarsson, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og Brynjar Níelsson, sem samam skrifa grein í Mogga dagsins.
Þar er þetta að finna: „Okkur virðist sem stefna núverandi heilbrigðisráðherra sé að auka starfsemi opinberrar heilbrigðisþjónustu og á sama tíma draga úr framlagi sjálfstætt starfandi sérfræðinga og heilbrigðisstofnana. Það er að okkar mati röng stefna og nauðsynlegt er, áður en stór skref verða stigin, að fyrir liggi langtímaáætlun í heilbrigðismálum okkar. Engum dytti t.a.m. í hug að fjölga starfsmönnum hjá Vegagerðinni þegar auknar framkvæmdir eru fram undan. Þá er farin sú leið að bjóða út fleiri og stærri verk til sjálfstætt starfandi verktakafyrirtækja.“
Það þarf að bregðast við vandanum sem við okkur blasir í dag og grípa til úrræða sem vinna á biðlistum. Okkar skoðun er sú að það eigi að gera með því að bjóða út verkefni sem sjálfstætt starfandi fyrirtæki á heilbrigðissviði og starfsfólk þeirra geta leyst. Í þessu sambandi má nefna liðskiptaaðgerðir, vistun heilabilaðra og dagvistarúrræði fyrir eldri borgara og sjúklinga. Við höfum reynslu af aðgerð sem þessari þegar augnsteinaaðgerðir voru boðnar út fyrir nokkrum árum. Verkefnið tókst mjög vel, biðlisti hvarf á skömmum tíma og verðið fyrir aðgerðirnar var mjög hagkvæmt.
Það er á okkar ábyrgð að fá sem besta nýtingu á því fjármagni sem til ráðstöfunar er hverju sinni. Það er engin glóra í þeirri sviðsmynd sem birtist okkur í umræðunni um liðskiptaaðgerðir. Sjúklingar eru sendir til útlanda á sama tíma og hægt er að framkvæma allt að tvær til þrjár aðgerðir fyrir verð einnar hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækjum hér heima. Þetta er fráleit ráðstöfun fjármagns og svar ráðherrans að ekki sé gert ráð fyrir fjármunum til að framkvæma aðgerðirnar hér heima er algerlega út í hött. Samhliða útboðsleið eins og þeirri sem við tölum fyrir væri eðlilegt að opinberar heilbrigðisstofnanir s.s. Landspítalinn – háskólasjúkrahús leigðu út aðstöðu til sjálfstætt starfandi aðila. Þannig fengist betri nýting á t.a.m. skurðstofum og tækjabúnaði sem ekki er í notkun stóran hluta sólarhringsins.“