Oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, Hildur Björnsdóttir, skrifar grein í Mogga dagsins. Þar segir:
„Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 dregur upp dökka mynd. Rekstrarhallinn nam 15,6 milljörðum, en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 2,8 milljarða halla. Því er ljóst að borgarstjóri fór 13 milljarða umfram áætlanir í rekstri liðins árs. Er nema von manni svelgist á morgunkaffinu?“
Hildur skrifaði áfram:
„Hér er um gríðarlega fjármuni að ræða og ljóst að helstu frávikin má finna í sívaxandi rekstrarkostnaði. Borgarstjóri dregur hins vegar fram aðrar skýringar, segir borgina fara vel með fé, en framúrkeyrsluna skýrast helst af „íþyngjandi þjónustu við fatlað fólk“. Þær fullyrðingar standast enga skoðun, en þegar betur er að gáð fór málaflokkur fatlaðs fólks 664 milljónir umfram fjárheimildir á árinu 2022, og nemur því einungis 5% af framúrkeyrslu síðasta árs.
Það er vægast sagt ósmekklegt hvernig borgarstjóri notar fatlað fólk sem skálkaskjól þegar verjast þarf óumflýjanlegri umræðu um óábyrgan rekstur borgarinnar. Það er reksturinn sem er vandamálið, ekki lögbundin þjónusta við fatlað fólk,“ skrifaði Hildur Björnsdóttir í Moggann í dag.