„Við erum hérna með græna gímaldið og öll þessi leiðindamál, kennaraverkföll og alls konar erfiða bolta sem lenda á borðinu hérna, hjá þessum gæja.“
Einar Þorsteinsson borgarstjóri Mogga dagsins.
Dagur B. var varla farinn á sinn nýja vinnustað en Einar borgarstjóri Þorsteinsson reif í rattið og stefnir hraðbyr til hægri. Einar er á heimleið. Hann er sammála Sjálfstæðisflokki hvað varðar flugvöllinn og meira segja hvað varðar „fjölskyldubílinn“.
Í Mogganum segir borgarstjóri:
„Við erum á erfiðu tímabili hvað varðar samgöngur. Við reynum að efla almenningssamgöngur og höfum unnið að alls konar verkefnum sem munu koma til með að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu öllu. Það hefur verið þrengt að fjölskyldubílnum með þeim skilaboðum að taka strætó en þjónustan er samt ekki nægilega góð. Við þurfum að sýna hvert öðru mildi þegar kemur að þessu. Venjulegt fjölskyldufólk í úthverfunum á erfitt með að sinna sínum erindum hjólandi eða í almenningssamgöngum. Einhverjir geta það en aðrir ekki.“
„…þýðir ekkert að fara taugum yfir þessu.“
Framsókn siglir gegn vindi. Mogginn spyr Einar um þá staðreynd:
Fylgi Framsóknarflokksins mælist nú 3,3% samkvæmt nýrri Gallup-könnun.
„Gaman að þú skulir nefna hana,“ segir Einar og það vottar fyrir kaldhæðni.
Þetta hlýtur að vera verulegt áhyggjuefni og væntanlega ekki ásættanlegt í þínum huga?
„Bara betri könnun en ég bjóst við,“ segir Einar kíminn.
„Við erum hérna með græna gímaldið og öll þessi leiðindamál, kennaraverkföll og alls konar erfiða bolta sem lenda á borðinu hérna, hjá þessum gæja. Þetta er auðvitað alls ekki nógu gott og ég vildi að við værum í miklu hærri tölum. Það er eitt ár eftir núna af þessu kjörtímabili og það þýðir ekkert að fara taugum yfir þessu.“