- Advertisement -

Dagur fær 2,5 milljónir fyrir níu fundi

Sanna vill skrúfa fyrir krana sjálftökunnar. „Það hefur eitthvað farið alvarlega aflaga í stjórnmálum þegar borgarstjóri Reykjavíkur og bæjarstjórar nágrannasveitarfélagana eru farnir að taka sér hærri laun en borgarstjórar New York, London og París.“

Sanna og Daníel:
„Það er sagt að þetta sé aðeins brotabrot af veltu borgarinnar. Þess vegna er sjálftakan látin viðgangast og magnast. En þetta er fyrirsláttur. Ef sjálftakan hneykslar okkur eigum við að stöðva hana. Það mun koma í ljós á fundi borgarstjórnar hvaða borgarfulltrúar eru tilbúnir til þess að byrja að skrúfa ofan af þeirri sjálftöku sem hefur viðgengist hér of lengi.“
Ljósmynd: Alda Lóa Leifsdóttir.

Óskað var eftir að fyrirsögninni yrði breytt. Fundir í stjórn slökkviliðsins voru ögn fleiri en getið var um og því var þóknunin fyrir hvern fund ívið lægri en getið var um í upphaflegra fyrirsögn.

Ein af þeim tillögum sem Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista, mun leggja fram á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar er um að banna stjórnendum og kjörnum fulltrúum borgarinnar að þiggja þóknun fyrir fundi í stjórnum, ráðum og nefndum sem haldnir eru á vinnutíma.

„Það hefur eitthvað farið alvarlega aflaga í stjórnmálum þegar borgarstjóri Reykjavíkur og bæjarstjórar nágrannasveitarfélagana eru farnir að taka sér hærri laun en borgarstjórar New York, London og París,“ segir Sanna. „Við ættum að horfast í augu við að þessi laun afhjúpa spillingu stjórnmálaforystunnar og við ættum að gera eitthvað í því. Fyrsta skrefið ætti að vera að banna þessu fólki að taka þóknanir fyrir fundi sem það situr í vinnutíma sinnar aðalvinnu og sem eru því augljóslega hluti af þeim starfsskyldum sem það fær greitt fyrir af föstu launum.“

Fyrir skömmu kom fram í fréttum að sveitarstjórar á höfuðborgarsvæðinu sátu fimm fundi stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins í fyrra og þáðu fyrir það tæpar 11 milljónir króna. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er formaður stjórnarinnar og fékk rúmar 205 þúsund krónur á mánuði að launum eða tæplega 2,5 milljónir króna yfir árið. Deilt niður á fundi gera það rúmlega 492 þúsund krónur fyrir hvern fund. Samkvæmt fundargerðum stóðu fundirnir í einn til tvo tíma. Tímakaup Dags er því nærri 330 þúsund krónum að meðaltali.

„Almenningur þolir þetta ekki lengur,“ segir Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi sósíalista og stjórnarmaður í Eflingu, stéttarfélagi. „Þetta er út úr öllu korti og er ekkert annað sjálftaka æðstu stjórnenda sveitarfélaganna. Og sjálftaka stjórnenda er alvarlegt mál. Hún er ekki bara eitur í stjórnkerfinu og innan stjórnmálanna, spilling sem grefur undan heiðarlegum stjórnmálum, heldur er hún algjörlega óþolandi vanvirðing gagnvart heiðarlegu starfsfólki. Konan sem skúrar skrifstofu Dags B. Eggertsson er líklega með lágmarkslaun, 300 þúsund krónur á mánuði. Dagur sjálfur tekur síðan 330 þúsund krónur í þóknun fyrir einn klukkutíma á fundi hjá slökkviliðinu. Borgarfulltrúar verða að stoppa þetta. Þó ekki væri nema af virðingu fyrir konunni sem skúrar skrifstofu borgarstjóra.“

Daníel ber saman þóknun Dags sem stjórnarformanns Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og hans eigin þóknun sem stjórnarmanns í Eflingu. „Ég sit fundi einu sinni í mánuði í rúma tvo tíma í hvert sinn. Ég tel ekki með undirbúninginn því sjálfsagt undirbýr Dagur sig einnig. Fyrir stjórnarsetu í Eflingu fæ ég 100 þúsund krónur á ári, rúmar 8 þúsund krónur á mánuði og því tæpar 4 þúsund krónur á tímann. Þóknun Dags er um 90 sinnum hærri en þetta. Án þess að ég vilji gera of mikið úr sjálfum mér get ég fullyrt að Dagur er ekki 90 sinnum merkilegri en ég,“ segir Daníel.

Þau Sanna og Daníel segja að fyrir ekki svo löngu hafi þingfararkaup verið viðlíka hátt og kennaralaun. Fólk sem gaf sig að stjórnmálum eða almannaþjónustu gat vænst þess að fá þokkaleg millistéttarlaun fyrir sitt framlag til samfélagsins. Á nýfrjálshyggjuárunum breyttust viðhorf í samfélaginu og millistéttarlaun þóttu ekki lengur ásættanleg eða eftirsóknarverð. Í stað þess að miða við ágætlega launað millistéttarfólk fór stjórnmálafólk að bera sig saman við forstjóra hjá stórfyrirtækjum. „Ég er ekki viss um að stjórnmálin verði betri ef þau laða að sér fólk sem vill verða eins og forstjórar í kapítalískum fyrirtækjum, fremur en fólk sem vill bera sig saman við kennara, hjúkrunarfólk eða annað millistéttarfólk,“ segir Sanna.

Það hefur komið fram í fréttum að laun Dags B. Eggertssonar borgarstjóra voru um 2 milljónir króna á mánuði í fyrra, föst laun og aukagreiðslur fyrir fundasetu hjá slökkviliðinu, Faxaflóahöfnum og víðar. „Þessi laun er meira en sjö sinnum hærri en borgin greiddi lægst launaða starfsfólki borgarinnar í fyrra,“ segir Daníel. „Er það ásættanlegt? Er framlag borgarstjórans sjö sinnum mikilvægari en konunnar sem skúrar skrifstofuna hans? Auðvitað ekki. Ef Dagur eða aðrir halda að svo sé ættum við kannski að sleppa því að þrífa Ráðhúsið og sjá til hversu lengi fólk þolir við. Ég efast ekki um að fólk myndi frekar þola langar fjarvistir borgarstjórans.“

„Þegar svona tillögur koma fram, að lækka laun eða þóknanir til æðstu stjórnenda, er viðkvæðið oft að þetta skipti svo litlu máli þegar horft er á heildina,“ segir Sanna. „Það er sagt að þetta sé aðeins brotabrot af veltu borgarinnar. Þess vegna er sjálftakan látin viðgangast og magnast. En þetta er fyrirsláttur. Ef sjálftakan hneykslar okkur eigum við að stöðva hana. Það mun koma í ljós á fundi borgarstjórnar hvaða borgarfulltrúar eru tilbúnir til þess að byrja að skrúfa ofan af þeirri sjálftöku sem hefur viðgengist hér of lengi.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: