„Sem fyrr lætur borgarstjóri ekki ná í sig vegna málsins en vísar þess í stað á lágt setta yfirmenn eða jafnvel nefndaformenn. Afsakanir formanns umhverfis- og skipulagsráðs verða æ fjarstæðukenndari. Eftir að yfirlýsing um að stýrihópur væri að endurskoða þjónustuhandbók vetrarþjónustu sló ekki í gegn, var ýjað að því að meint fákeppni í snjóruðningi væri vandinn,“ skrifar Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. Greinin er birt í Mogga dagsins.
„Það er engin fákeppni á markaðnum með snjóruðning. Mörg hundruð vinnuvélar á Reykjavíkursvæðinu eru tiltækar í verkefnið en einungis um 20 þeirra að störfum í höfuðborginni,“ skrifar Kjartan.
„En auðvitað er það borgarstjóri ásamt pólitískum meirihluta borgarstjórnar sem ber höfuðábyrgð á skipulagsklúðrinu og lélegri verkstjórn í málaflokknum,“ segir í greininni.
Eins og eldri Sjálfstæðismönnum sæmir leitar Kjartan til borgarstjórnarára Davíðs Oddssonar:
„Til frekari samanburðar má geta þess að árið 1984 voru um 100 tæki send út á götur Reykjavíkur til snjóruðnings þegar sambærilega snjókomu gerði.“
Hvað ætli þurfi mörg tæki frá tíð Davíðs til að jafnast á eitt tæki nú?
Flest allt hefur tekið miklum breytingum á á fjörutíu árum. Þetta er handónýtur samanburður.
Í dag var ég í Reykjavík. Það var pínlegt að horfa á erlenda ferðamenn basla við að draga ferðatöskur yfir glerharða snjóruðninga. Borgarstjórn til mikillar skammar.