Covid, ys og þys út af engu?
Davíð okkar Oddsson er ekki sannfærður um skaðann af kórónaveirunni. Og skammast sín ekkert fyrir það. Hann flytur sinn boðskap í Staksteinum dagsins. Davíð skrifar:
„Veirufréttir eru í senn þrúgandi og teknar að fara fyrir ofan garð og neðan.
Þess vegna verður jafnvel þeim sem eru best búnir til fótanna hált á svellinu.
Þetta gildir um fleiri lönd en okkar.
Í breskum fréttum kom fram að þar í landi voru þá nærri 1.100 nýsmit skráð og var þar um samdrátt að ræða.
Þá var sagt frá því að opinberar tölur um andlát sem rekja megi til veirunnar töldust nú vera að meðaltali 12 á dag.
Einhverjum kynni að þykja þetta hátt en þá er þess að geta að Bretar eru ríflega 200 sinnum fjölmennari en Íslendingar.
Og sá fréttapunktur sem gjarnan var skotið inn í allar þessar fréttir var kannski athyglisverðastur.
Hann var sá að nú létust nærri áttatíu manns daglega af völdum flensu og lungnabólgu eða sex sinnum fleiri en þau andlát sem skrá má af öryggi á reikning kórónuveirunnar.
Það er óneitanlega fróðlegt að setja hlutina í samhengi við þætti úr lífsbaráttunni sem flestir þekkja til.
Ekki er vitað til þess að nein skelfingarbylgja sé í gangi þar syðra vegna hitasótta og flensu.“