Tómas Guðbjartsson læknir skrifaði:
„Þegar ég mætti á gjörgæsluna í dag við Hringbraut var búið að raða öllum Covid-skónum upp – og ekkert par í notkun. Það voru góðar fréttir, enda þýddi það að enginn slíkur sjúklingur væri á deildinni. Fyrir mánuði tók ég mynd á saman stað – en þá voru flest pörin í notkun og lítill tími til að raða þeim ónotuðu. Síðar í dag var ég einnig kallaður út á gjörgæsluna í Fossvogi. Þar reyndust nokkur pör ennþá í notkun – en fá – enda aðeins 3 sjúklingar á deildinni og einungis einn í öndunarvél. Eins og kom fram í fréttum í dag hafa samtals 27 sjúklingar lagst inn á gjörgæslu í þessum faraldri og langflestir lifað gjörgæslumeðferðina. Sem er eitthvað sem Íslendingar geta verið stoltir af. Þetta er klárlega betri árangur en í mörgum nágrannalöndum okkar – en þar hefur stór hluti Covid-sjúklinga hefur því miður ekki náð lifandi út af gjörgæslu. Þessi góði árangur verður örugglega rannsakaður nánar og eflaust hefur margt hjálpast að. Miklu skiptir að álagið á gjörgæsluna hefur aldrei farið yfir krítíst þolmörk. Einnig hefur sýktum sjúklingum verið fylgt vel eftir strax við upphaf veikinda á Covid-göngudeildinni, og þeir því síður endað inni á spítala og gjörgæslu. Loks eigum við frábæra gjörgæslulækna og hjúkrunarfræðinga – og er þá ekki á aðra heilbrigðisstarfsmenn hallað.“