Covid: Heimkomusmittgáttin var mistök
Eina vitið er að herða reglur smitgáttarinnar eða fara aftur í sóttkvína.
Marinó G. Njálsson skrifar:
Mikil umræða er í gangi á Facebook hvort farið hafi verið of geyst af stað. Spurt hvort opnunin hafi verið mistök.
- 1. Landið var aldrei lokað og breytingin fólst ekki í því að það hefði verið opnað.
- 2. Flest smit eru að koma frá fólki með tengingu við landið, þ.e. með fast aðsetur, vinnur hér eða á fjölskyldu hér.
- 3. Erlendir ferðamenn eru óverulegur áhættuhópur og hafa nánast aldrei borið með sér virkt smit. Nánast aldrei þýðir að vissulega hafi smit borist þeim, en mjög fá.
Stærsta breytingin var gerð 13. júlí og varðar heimkomusmitgáttina. Þegar hún var kynnt, þá var haft eftir Þórólfi Guðnasyni:
„Í framtíðinni verði áhersla á skimun meðal Íslendinga sem koma til landsins og hafa hér tengslanet. Nýjar leiðbeiningar um skimanir þeirra koma til framkvæmda 13. júlí. Þessir einstaklingar fari þá í skimun við komu og fari þá í útfærslu af sóttkví sem kallast heimkomusmitgátt og er vægara form af sóttkví. Verða gefnar út leiðbeiningar um hana síðar. Ef niðurstaðan er neikvæð eftir þessa nokkurra daga sóttkví er viðkomandi frjáls ferða sinna.“
Hugsanleg komu einhverjir með smit áður en heimkomusmitgáttin var tekin upp, en þau smit virðast ekki hafa náð að dreifa sér, enda átti fólk að vera í sóttkví. Eftir að smitgáttin var tekin upp er nánast eins og fjandinn hafi orðið laus. Síðan hafa 35 ný smit verið greind (25 síðustu 4 daga samanborið við 23 á 4 vikum fram að 13. júlí) og full mörg eru innanlandssmit.
Tölum bara mannamáli. Þessi aðferð gekk ekki nógu vel. Betra hefði verið að viðkomandi hefði verið í sóttkví, þar til niðurstaða seinni skimunar var ljós. Mjög líklegt er að öll innanlandssmit megi rekja til einstaklinga sem ekki sýndu næga varúð þessa daga sem heimkomusmitgáttin átti að vara. Ekki er hægt að kenna sóttvarnaryfirvöldum um það fyrir utan að þau voru full bjartsýn að treysta því að allir héldu sig við reglur heimkomusmitgáttarinnar. Eina vitið er að herða reglur smitgáttarinnar eða fara aftur í sóttkvína.
Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós.