Costco virðist ætla að gjörbreyta verslun á Íslandi. Verðdæmin þaðan eru mörg hver hreint ótrúleg. En hvað er Costco?
„Costco er næst stærsta smásölufyrirtæki í heimi og rekur 732 vöruhús um allan heim. Heildartekjur samstæðunnar síðustu tólf mánuði námu 120 ma. USD en það er fimmfalt meira en landsframleiðsla Íslands á síðasta ári,“ segir í Hagsjá Landsbankans í dag.
„Costco er næst stærsta smásölufyrirtæki í heimi á eftir Walmart. Alls rekur Costco 732 vöruhús, þar af 510 í Bandaríkjunum og voru heildartekjur samstæðunnar síðustu tólf mánuði 120 ma. USD en það er fimmfalt meira en landsframleiðsla Íslands á síðasta ári. Einn hlutur í Costco á Nasdaq kostar nú 174,7 USD. Hefur hlutabréfaverðið hækkað um 14,7% á ári að meðaltali síðustu 20 ár,“ segir þar ennfremur.
Er Costco góð viðbót?
„Þetta er einn flottasti smásali í heiminum. Ég segi það bara eins og það er. Fyrirtækið er 700 sinnum stærra en við sem þýðir að ef ég kaupi eitt bretti af jarðarberjum þá kaupa þeir 700. Það er 700 sinnum fjársterkara en við og getur fjármagnað sig á eitt prósent vöxtum sem eru kjör sem standa okkur ekki til boða. Að því leytinu til er aðstöðumunur. Og það segir sig sjálft að ef svona aðili ætlar að koma inn á markaðinn og beygja þá sem fyrir eru þá getur hann það. Ég hef hins vegar ekki trú á að svo verði vegna þess að ég held að það sé ekki þeirra hugmyndafræði,“ sagði Jón Björnsson forstjóri Festis í Umræðu Landsbankans.
-sme