Sjávarútvegur Tómas Þór Eiríksson tekur við starfi framkvæmdastjóra Codland í byrjun júní. Tómas Þór var sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf hjá Virðingu síðastliðið ár og hefur víðtæka reynslu og menntun á sviði stjórnunar. Tómas Þór hefur yfir 12 ára reynslu af fjármálamörkuðum og fjármálastjórnun fyrirtækja. Tómas Þór er með Global Executive MBA próf frá EADA viðskiptaháskólanum í Barcelona og HHL Leipzig og útskrifaður sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri.
Erla Ósk Pétursdóttir, sem gengt hefur stöðu framkvæmdastjóra Codland undanfarið ár, hefur tekið við sem gæða- og þróunarstjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis í Grindavík.
„Ég er mjög spenntur fyrir að færa mig yfir í sjávarútveginn og takast á við þau tækifæri sem í honum eru. Það er mikið að gerast í kringum fullnýtingu og verður mjög áhugavert að taka þátt í því með Codland. Einnig verður spennandi að taka þátt í því skemmtilega umhverfi sem tekist hefur að mynda innan húsnæði Sjávarklasans. Það eru mjög spennandi tímar framundan í sjávarútveginum,“ segir Tómas Þór.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi óska þeim Tómasi og Erlu hjartanlega til hamingju.
Ný stjórn Codland
Á aðalfundi Codland þann 27.apríl sl. var ný stjórn Codland kjörin. Eftirtaldir aðilar eiga nú sæti í stjórn fyrirtækisins: Erla Ósk Pétursdóttir, Heiðar Hrafn Eiríksson, Jóhann Vignir Gunnarsson, Pétur Hafsteinn Pálsson og Þór Sigfússon. Erla Ósk, sem áður gegndi starfi framkvæmdastjóra Codland, var jafnframt kjörin formaður stjórnar.
Codland flytur starfsemi sína í Sjávarklasann
Á Codland flytur á næstu vikum starfsemi sína í Hús sjávarklasans. Þar mun félagið vera við hlið annara hafsækinna fyrirtækja og taka þátt í framsæknu samfélagi sem mótar sjávarútveg framtíðar. Samhliða því mun Codland vinna náið með Haustak á Reykjanesi.