Fréttir

Codland nálgast 100% nýtingu á þorski

By Miðjan

June 03, 2014

Sjávarútvegur Helsta verkefni Codlands í Grindavík, eða þorsklands eins og það kallast á íslensku, er að fullnýta þorskinn samkvæmt Erlu Ósk Pétursdóttur framkvæmdastjóra Codlands. „Markmið fyrirtækisins er að fá fleiri krónur fyrir hvern fisk sem kemur upp úr sjó,“ segir Erla. Fyrirtækið er að meðal annars að vinna Collagen úr roði fisksins sem væri annars urðað eða selt annað. „Í stað þess að bera þann kostnað sem urðun felur í sér hefur Codland fundið leið til að auka verðmæti fisksins,“ segir Erla á heimasíðu LÍÚ. Collagen er ein tegund próteins og getur með inntöku bætt heilsu og hreyfigetu. Það örvar umbrot frumna í brjóski og liðum og stuðlar að endurnýjunarferli í bandvefjum en efnið styður til dæmis vefi í beinum, húð, vöðvum og sinum líkamans. Notkun Collagens ýtir jafnframt undir til dæmis stinna og slétta húð. Eins og Erla nefnir er Collagenið notað meðal annars í snyrtivörur og fæðubótarefni. Eiginleikar efnisins eru margskonar og því mörg tækifæri til staðar fyrir þessa vöru samkvæmt Erlu. Með þessu eykst verðmæti fisksins sem er helsta markmið Codlands. Að sögn Erlu er fyrirtækið nú komið í samstarf við spænska fyrirtækið Juncà Gelatines þar sem Collagenið verður unnið fyrst um sinn á meðan unnið er að byggingu nýrrar Collagens verksmiðju á Íslandi.

Í framhaldinu nefnir Erla nýtt verkefni sem Codland er að fara að byrja á en það snýst um að nýta bein fisksins sem verða eftir þegar slóg er unnið í hrálýsi og mjöl. Samkvæmt Erlu verða fyrstu skrefin í þessu verkefni tekin í sumar þar sem fyrirtækið ætlar að gera markaðsrannsóknir á hvernig megi nýta þennan hluta fisksins. Samhliða því munu starfsmenn Codlands gera viðeigandi rannsóknir. Með þessu verkefni mun Codland komast enn nær markmiði sínu sem er að fullnýta þorskinn og þar með auka verðmæti hans til fulls.