- Advertisement -

Byrja í nýju starfi um áramót

Lilja umlaði. Merkilegt hvað þessi starfsráðningarviðtöl snúast mikið um jeppa…

Halldór Árni Sveinsson skrifar:

Það hringdi einhver Lilja í mig áðan, og tilkynnti mér að hún væri búin að skipa mig útvarpsstjóra frá næstu áramótum. Ég sagði henni að þetta væri einhver misskilningur því ég hefði ekki sótt um neitt starf. Þá sagði hún mér – í trúnaði – að ráðningarferlið, þ.e.a.s. að hafa nafnleynd hefði mælst svo illa fyrir, og líka hitt að þarna hefðu sótt um einhverjar konur með mjög erfiðar skoðanir, að það hefði verið ákveðið að halda nafnleyndinni, en skipa einhvern sem ekki hefði sótt um. Því bað hún mig að vera ekkert að tala um þetta, og ekki segja neinum hvað ég væri að gera í útvarpshúsinu þegar ég færi að mæta þar til vinnu á nýja árinu. Úpps, ég hefði sennilega ekki átt að nefna þetta hérna, elskurnar verið þið ekkert að tala um þetta við einn eða neinn.

Hún talaði svo sköruglega og skýrt þessi Lilja, að ég komst eiginlega ekkert að til að segja henni að ég hefði ekki hugsað mér að þekkjast þetta starf, eða yfirhöfuð neitt annað, ég væri að nálgast eftirlaunaaldurinn mjög hratt, og þó ég hefði mikinn áhuga á fjölmiðlum, þá kynni ég ekkert í rekstri svona batterís.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hún hefur örugglega lesið hugsanir mínar, því hún sagði mér næst að hafa engar áhyggjur af rekstrinum, það yrði hvort eð er engir fjármunir til að gera eitt eða neitt. „Nú?“ svaraði ég agndofa. –„Já til að fá að skipa í þetta embætti, varð ég að lofa vinum mínum Sjöllunum að taka stofnunina nánast af auglýsingamarkaði, og gera henni ókleift að vinna nokkra dagskrárgerð með aurum af fjárlögum, svo best er bara fyrir þig að láta fara lítið fyrir þér og gera helst ekkert. Nú þú getur auðvitað farið út um allar trissur á jeppanum“.

„Jeppanum?“ át ég upp eftir henni. –„Já viltu álfelgur á hann? Og hvernig lit?“ Nú leist mér örlítið betur á dílinn. „Tja, bara svona týpiskan svartan forstjórabíl“ í anda tilsvara Akureyska iðnjöfursins Eyþórs í Lindu, þegar hann pantaði sér forstjórabíl hjá sölumanni Globus í den. „Wagon eða sedan? Með leðursætum, eða er í lagi leðurlíki?“ Nú rigndi spurningunum frá Lilju. –„ Bara vegan held ég“ minnugur heitra skoðanaskipta míns fólks í Firðinum undanfarna daga. – „Alls ekki leður eða neinar dýraafurðir í sætunum, allra síst hrossleður. Já eða einhver lík sem þú nefndir líka, af dýrum meina ég. Er ekki hægt að fá jeppann bara með svona sjálfbæru jurtaáklæði einhvers konar? Vafningsjurt, Gleymérei eða svona Se&Hör?“

Lilja umlaði. Merkilegt hvað þessi starfsráðningarviðtöl snúast mikið um jeppa…..


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: