Alþingi
„Frumvarp fjármálaráðherra um uppkaup fasteigna í Grindavík fellur í grýttan jarðveg meðal margra Grindvíkinga,“ sagði Guðbrandur Einarsson Viðreisn, á Alþingi í dag.
„Þó að frumvarpið gagnist vel flestum eru til staðar jaðartilvik sem frumvarpið nær ekki að fanga. Þessum tilvikum er ágætlega lýst í mörgum þeirra umsagna sem fram komu um helgina. Það að komið hafi rúmlega 300 umsagnir ætti að segja okkur ýmislegt. Margir eru ósáttir við að verið sé að miða við hluta af brunabótamati, margir eru ósáttir við skilyrði um lögheimili og þá finnst mörgum súrt að geta ekki flutt áhvílandi lán með sér, væntanlega á nýja eign. Byggingarverktakar hafa líka sett sig í samband við þingmenn og lýst stöðu sinni sem ekki er góð. Ekki er verið að gera ráð fyrir að kaupa upp íbúðir sem þeir eru með í sölu. Það mun væntanlega gera það að verkum að þeir munu eiga erfitt með að halda áfram starfsemi þar sem þeirra eigið fé er bundið í húseignum sem ekki fást bættar,“ sagði Guðbrandur.
„Það er ljóst, virðulegur forseti, að gera þarf verulegar breytingar á þessu frumvarpi eigi það að geta náð utan um alla þá sem eiga allt sitt eigið fé bundið í húseignum í Grindavík, bæði íbúana sem margir falla á milli skips og bryggju í frumvarpinu og aðra sem eiga hagsmuna að gæta. Fulltrúar í undirnefnd um málefni Grindavíkur hafa óskað eftir fundi í nefndinni og í morgun komu viðbrögð við þessari beiðni.
Nú er orðið ljóst að einhver bið verður á því að þetta frumvarp verði lagt fram til þinglegrar meðferðar en gert hafði verið ráð fyrir að það myndi eiga sér stað í þessari viku. Vonandi er það vegna þess að taka eigi tillit til þeirra athugasemda sem borist hafa og við fáum í hendur frumvarp sem nái betur utan um alla þá sem í hlut eiga.“