- Advertisement -

Byggðakvótinn frá Djúpavogi fór á norska auðmenn sem eru í fiskeldi

Stórútgerð samþjöppunar sem kinnroðalaust sölsar undir sig allt lífsviðurværi þessara viðkvæmu sjávarbyggða.

Inga Sæland.

„Mig langar að byrja á smá yfirsýn og vangaveltum um byggðakvótann svokallaða. Mér finnst ekki úr vegi að tala um hann þar sem ég veit að 5.400 tonnum hefur verið úthlutað sérstaklega til þess og markmiðið var að tryggja í rauninni afkomu veikbyggðra sjávarbyggða í kringum landið. Þá liggur næst við að spyrja: Hvað er SFS, gamla góða LÍÚ, að landa miklu af byggðakvótanum annars staðar en þar sem honum var ætlað að styðja við viðkvæmar sjávarbyggðir? Blóðtakan er slík að byggðunum er hreinlega að blæða út. Stórútgerð samþjöppunar sem kinnroðalaust sölsar undir sig allt lífsviðurværi þessara viðkvæmu sjávarbyggða, sem á árum áður voru fullkomlega sjálfbærar í rekstri sínum þar sem þeim var ekki meinaður aðgangur að nálægum auðugum fiskimiðum,“ sagði Inga Sæland á Alþingi.

„Það er orðið ansi hart, virðulegi forseti, þegar þessi fiskigarkar stórútgerðarinnar stjórna hreinlega búsetuþróun hringinn í kringum landið. Þess vegna væri ekki úr vegi að hæstvirtur ráðherra upplýsti okkur um það hve stóran hluta byggðakvótans SFS er raunverulega að taka til sín.

Sem dæmi: Byggðakvóta var úthlutað til Þingeyrar sem Bergey átti að veiða, en raunin er sú að stórir togarar hirtu megnið af byggðakvótanum sem að megninu til hefur síðan verið unninn í Kópavogi. Byggðakvótinn á Suðureyri fer að stærstum hluta á skip, Gunnvöru, sem gert er út frá Ísafirði. Byggðakvótinn frá Djúpavogi fór á norska auðmenn sem eru í fiskeldi. Hvernig má það vera að byggðakvóta sé úthlutað til fyrirtækja í eigu erlendra aðila? Þetta var gert þvert á lög, en þegar loks komst upp um lögbrotið þá var kvótinn færður yfir til fyrirtækis í eigu innlendra aðila sem gerði í kjölfarið verktakasamning við fyrirtæki sem áður hafði ólöglega fengið úthlutað téðum kvóta. Sem sagt: leppun, eins og þar stendur. Telur ráðherra forsvaranlegt að byggðakvóti renni í jafn miklu magni og raun ber vitni til stórútgerðar? Er slíkt verklag ekki beinlínis að grafa undan markmiði byggðakvótans, þ.e. að vernda sjávarbyggðirnar?“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: