Nú er hægt að læra býflugnarækt hjá Landbúnaðarháskólanum í Reykjum í Ölfusi og er þetta í fyrsta sinn sem áfanginn er kenndur við skkólann. Hægt hefur verið að fara á námskeið um býflugnarækt hjá Félagi býflugnaræktenda.
Sagt er frá því á vef Landbúnaðarháskólans að á starfsstöð skólans í Reykjum í Ölfusi fari nú fram kennsla í býflugnaræktun og er áfanginn skylda á fyrsta ári fyrir nemendur í ylræktarbraut og lífrænni ræktun. Í áfanganum er farið yfir allt frá sögu býflugnaræktunar, samfélagsgerð, fóðrun og umhirðu, yfir í helstu meindýr og sjúkdóma sem spillt geta býflugnarækt. Einnig er afurðum lýst, nýtingu þeirra og úrvinnslu.
Úlfur Óskarsson er umsjónamaður áfangans en sjálfur er hann býflugnaræktandi til þriggja ára. Á Reykjum verða fimm bú vetruð í ár, sennilega 250-300 þúsund flugur.
Mikilvæg tómstundariðja
Í hverju búi er ein verpandi fluga sem kallast drottning og hana þarf að endurnýja á tveggja til þriggja ára fresti, annað hvort með því að kaupa nýja eða að sjá til þess að býflugurnar ali upp nýja drottningu. Á svipaðan hátt getur ræktandinn fjölgað búum á sumrin. Bestu drottningarnar draga úr árásagirnd þernanna í búinu, verpa vel, hvetja þernurnar til að afla mikils fóðurs og eru ekki svermgjarnar, þ.e. yfirgefa ekki búið með stóran hluta flugnanna til að setjast að á nýjum stað þegar þeim hentar.
Þótt býflugnarækt sé fyrst og fremst skemmtileg tómstundariðja og áhugaverður búskapur sem býr til gómsæta afurð, geti markviss ræktun haft þýðingu fyrir útiræktun þar sem frjóberar skipta miklu máli, svo sem í berja- og repjurækt.
Vinsæl námskeið í býflugnarækt
Úlfur segir að íslenska hunangið sé yfirleitt einstaklega braðgott og að býflugnaræktandi á Íslandi geti verið ánægður með að fá um 30 kg á ári úr sterku búi. Á Íslandi eru nú um 90 býflugnaræktendur. Félag býflugnaræktenda, Bý, var stofnað árið 2000, en það heldur úti öflugri heimasíðu, www.byflugur.is, þar sem hægt er að nálagst ítarlegar upplýsingar um býflugnarætkun. Reglulega heldur félagið helgarnámskeiðaröð um býflugnarækt. Undanfarin ár hafa um 20-35 þátttakendur verið á hverju námskeiði.