Björn Leví Gunnarsson á Alþingi:
„Stöðugleiki hefur verið talinn dyggð í íslenskum stjórnmálum í langan tíma og eðlilega því að andstaða stöðugleika er glundroði og augljóslega vill enginn glundroða. Skammt frá stöðugleikanum er hins vegar stöðnun. Ég hef upplifað stöðnun að undanförnu. Sömu gestir í sömu málum koma ár eftir ár og lýsa sömu vandamálum, vandamálum sem eru jafnvel áratugagömul, í velferðarmálum, sveitarstjórnarmálum, öldrunar- og örorkumálum, menntamálum, heilbrigðismálum. Allar breytingar gerast hægt og of seint fyrir marga.
Við verðum að líta aðeins til núverandi ríkisstjórnarsamstarfs og sérstaklega þeirra flokka sem hafa verið við stjórn meira og minna alltaf. Við búum í þeirra kerfi. Núverandi ástand í sjávarútvegsmálum, byggðamálum, samgöngumálum, menntamálum, efnahagsmálum er á þeirra ábyrgð og sérstaklega þau vandamál sem hafa legið á þjóðinni í áraraðir. Það er vandræðalegt fyrir alla, sérstaklega fyrir þá sem eru sífellt að benda á vandamálin. Í gær t.d. fjallaði ég um vandamál sem fjölmiðlar hafa spurt út í í mörg ár og tók mig ár að fá svör við. Í gær benti ég líka á vandamál sem hefur tekið mig meira en ár að fá svar við og ekkert er að gerast enn.
Breytingar eru nauðsynlegur hluti stöðugleika því að án þeirra upplifðum við bara stöðnun. Í breytilegum heimi náum við ekki neinum árangri ef við vinnum ekki markvisst í þeim vandamálum sem hafa blasað við okkur áratugum saman. Í síbreytilegum heimi mikilla og hraðra breytinga verður þetta sífellt mikilvægara og í pólitíkinni eru það frjálslyndu öflin sem eru þar með lausnirnar. Í síbreytilegum og tæknilegum heimi eru Píratar með lausnina, aðrir herma.“