Greinar

Burt með spillingarliðið af þingi

By Miðjan

November 27, 2018

Marinó G. Njálsson.

Marinó G. Njálsson skrifar: Enn tekst Alþingi að misbjóða siðferðisvitund þjóðarinnar. Enn sannar Alþingi að völd spilla.

Ég var í gærkvöldi að velta fyrir mér spillingarsamþykkinu sem Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sendi frá sér um aksturskostnað þingmanna. Ég var svo ótrúlega hissa á niðurstöðu „forsætisnefndar“, að mín litla trú sem þó lifði á siðgæðisgildum meirihluta Alþingis, hún dó við að lesa niðurstöðuna.

Þórður Snær Júlíusson hefur hins vegar sparað mér tíma við að koma hugsunum mínum á blað, því greinin hans á Kjarnanum hefði allt eins getað verið skrifuð af mér og líklegast fjölda annarra sem misbauð gjörsamlega sú meðvirkni og spillingarhugsun sem kemur fram í niðurstöðu forseta Alþingis.

Eitt er alveg öruggt, að séu þingmenn með opið tékkhefti frá Alþingi til að eyða peningum almennings í akstur og hugsanlega önnur útgjöld líka, sem koma störfum Alþingis ekkert við, þá þarf að breyta reglunum. Skattgreiðendur eiga EKKI að greiða fyrir neitt annað en það sem kemur störfum Alþingis við. Þegar fundirnir eru eingöngu ætlaðir pólitískum samherjum, þá á flokkurinn að greiða fyrir aksturinn. Það á líka við um prófkjörsbaráttu.

Burt með þetta spillingarlið úr þingsölum og af þingi.

Skrifin eru fengin af Facebooksíðu Marinós.