„Brynjar Níelsson alþingismaður var gestur þáttarins Ísland vaknar á K100 í gærmorgun og ræddi þar meðal annars um Ríkisútvarpið. Þar lýsti hann þeirri skoðun sinni að stofnunin væri orðin úrelt og að réttast væri að leggja hana af,“ þetta er bein tilvitnun æi Staksteina dagsins.
Brynjar sagðist vita að margir hefðu áhyggjur af að efnið hyrfi, en benti á að aðrir myndu eflaust taka að sér framleiðslu á því efni sem fólk mundi sakna.
„Þá benti hann á þá óeðlilegu stöðu að Ríkisútvarpið fengi meira en fjóra milljarða króna í forgjöf á markaðnum og spurði hvort slíkt yrði liðið á öðrum sviðum. Þessi óeðlilega forgjöf er eitt af því sem varð til þess að skipuð var nefnd til að gera tillögur um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla.“
Davíð Oddsson ritstjóri, sem er væntanlega höfundur Staksteina, segir að eftir rúmt ár hafi nefndin skilað niðurstöðu og hefur sú niðurstaða nú verið sett í einhvers konar nefnd. „Á sama tíma hefur verið ákveðið að fella niður virðisaukaskatt af bókum frá næstu áramótum. Ekki hefur verið útskýrt hvers vegna annað ritmál, sem einnig er mikilvægt fyrir íslenska tungu, verður undanskilið. En á meðan málið er gaumgæft keppa einkareknir fjölmiðlar áfram við milljarða Ríkisútvarpsins, að ógleymdum erlendum netrisum sem starfa í allt öðru umhverfi en íslenskir fjölmiðlar.“