„Kóngafjölskyldur fyrri tíma eru enn til en eru tímaskekkja sem á að heyra sögunni til. Það væri fróðlegt að kannað yrði hversu mikið af siðum og venjum á Bessastöðum á rætur að rekja til dönsku hirðarinnar. Slík könnun ætti að fara fram og síðan ætti markvisst að þurrka þá háttsemi út,“ segir í grein Styrmis Gunnarssonar í Mogga dagsins.
„Og út af fyrir sig má segja það sama um orðuglingrið sem hér er í gangi,“ bætir hann við. Styrmir er fyrst og fremst að skrifa hið hálfrar aldar gamla kosningamál Sjálfstæðisflokksins; „Báknið burt“.
„Almennt má segja að í okkar samfélagi eigi að þurrka út sýndarmennsku og tildur hvar sem það er að finna. Við erum öll afkomendur sjómanna og bænda og eigum að vera stolt af því. Prjálið sem einkennir flest evrópsk samfélög á ekkert erindi hingað og hefur aldrei átt þótt reynt hafi verið að innleiða ósiði annarra þjóða hér.
Sé Sjálfstæðisflokknum alvara með því að koma böndum á báknið og allan umbúnað þess er þetta réttur tími til þess, m.a. vegna þess að við þurfum með einhverjum hætti að borga kostnað við faraldurinn.
Það er enginn vafi á því að slíku átaki verður fagnað um allt land. Almennir borgarar sjá þá „blóðugu sóun“ sem hér er hjá hinu opinbera og þola hana illa. Þeir vita hverjir borga.
En þetta má ekki verða enn ein sýndarmennskan. Því yrði illa tekið.“