Stjórnmál

Burt með einkaþotur og þyrlur

By Miðjan

November 12, 2022

„Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna áréttar mikilvægi tillögu flokksins um að fela borgarstjóra þegar að ganga til samninga við ríkisvaldið um að losa Reykjavíkurflugvöll og þar með borgarbúa undan þeirri áþján sem hlýst af einkaþotu- og þyrluflugi á vellinum,“ bókaði Stefán Pálsson, varaborgarfulltrúi Vinstri grænna á fundi borgarráðs.

„Í umsögn borgarritara um málið er vísað til níu ára gamals samkomulags ríkis og borgar um að færa einka- og kennsluflug á annan stað. Sú staðreynd ein og sér að lítið hefur gerst í málinu í tæpan áratug ætti að staðfesta mikilvægi þess að hreyfa við því að nýju með róttækum hætti. Þá hafa forsendur breyst mikið á þeim tíma sem liðinn er, ekki síst varðandi stórkostlega aukna þyrluumferð sem mörg telja enn meira truflandi en umferð flugvéla. Líklegt má telja að leysa mætti þyrlumálin sérstaklega án þess að tengja það ákvörðunum um framtíðarmiðstöð innanlandsflugsins.“